Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

539. mál
[16:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Nú tökum við fyrir þriðja málið í þessari röð í dag sem er breyting á lögum nr. 116/2006 og fjallar um rafvæðingu smábáta.

Með þessu frumvarpi erum við að breyta lögum um stjórn fiskveiða sem skapar skilyrði fyrir auknum árangri í orkuskiptum í sjávarútvegi. Þessar breytingar gera eigendum smábáta og minni fiskiskipa á strandveiðum heimilt að draga allt að 750 kg í stað 650 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð, ef skipið er skráð sem rafknúið skip á skipaskrá.

Í nefndaráliti okkar í meiri hlutanum segir m.a. að sjónarmið um að 100 kg aukning á hámarksheimild landaðs afla væri ekki nægjanleg og hvatinn til að skipta yfir í rafknúna báta þar með ekki mikill. Við tökum að vissu leyti undir þessar áhyggjur en bendum á að frumvarpið er ekki eini þátturinn sem leggur lóð á vogarskálarnar í orkuskiptum á hafi. Hvatar til grænna fjárfestinga og orkuskipta á hafi eru fjölþættir og er það skilningur meiri hlutans að áætlanir stjórnvalda gangi fremur út á að bæta í en hitt. Um fjölþættar aðgerðir er að ræða sem allar hafa það að marki að hvetja til orkuskipta á arðbæran hátt fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Hvatinn er því fjölþættur og frumvarpi því sem nefndin hefur til umfjöllunar er ætlað að bæta enn frekar úr og skapa frekari hvata. Auk þeirrar 100 kg aukningar sem um ræðir í þessu frumvarpi má nefna að sparnaður við orkukaup mun að sjálfsögðu verða allnokkur enda verðmunur mikill á olíu og raforku. Þá hafa styrkir til orkuskipta verið í boði vegna tækjabúnaðar sem nýtir endurnýjanlega orku, svo sem rafmagn, í stað olíu. Einnig eru í boði svokölluð græn lán sem almennt bera lægri vexti en önnur og eru ætluð einstaklingum og fyrirtækjum sem fjárfesta í umhverfisvænum búnaði. Ekki er allt upp talið hér, en ljóst að samlegðaráhrif þessara smærri þátta eru þó nokkur og má ætla að einstaklingar og fyrirtæki sjái hag sinn í því að ryðja brautina þegar kemur að rafvæðingu smábáta. Við höfum rætt þetta og fengið til okkar gesti sem hafa hafist handa. Við vitum að dropinn holar steininn í þessu, ekki síst í ljósi þess að breytingar gerast mjög ört og hratt í þessum orkuskiptamálum. Auðvitað ríður alltaf einhver á vaðið með þetta og kostnaður þeirra sem á eftir koma verður eðli máls samkvæmt væntanlega minni heldur en þeirra sem leggja af stað fyrstir. Þetta er ekki eitthvað sem gerist yfir nótt, en mikilvægt er að hafa lögin til staðar.

Nefndin fjallaði um rafvæðingu hafna umhverfis landið, enda ljóst að orkuskipti á hafi munu ekki eiga sér stað án rafvæðingar þeirra hafna sem skip og bátar landa við. Þá fjallaði nefndin um þá staðreynd að ekki verður unnt að rafvæða allar hafnir landsins á sama tíma og þar með mun samkeppnishæfni hafna hvað varðar þjónustu við rafknúna báta og skip skekkjast. Það er óhjákvæmilegt, alveg eins og var gagnvart rafmagnsbílum. Við vitum hvernig það hófst allt saman en þjónustan hefur svo smám saman verið að aukast um land allt og það sama verður væntanlega þarna, stærri hafnirnar eru þær sem fara líklega fyrstar í þetta og vonandi munu þær minni gera það líka, ekki síst þar sem skemmtiferðaskip koma.

Rekstur og þar með rafvæðing hafna er verkefni sem heyrir undir hafnir og hafnasamlög sem rekin eru af sveitarfélögum. Meiri hlutinn telur ljóst að ef vel á að takast til við uppbyggingu innviða sem tengjast orkuskiptum á sjó verði að koma til styrkir úr opinberum sjóðum. Við beinum því til ráðherra að huga vel að þessum þáttum sem ég hef farið yfir í okkar nefndaráliti. Það er auðvitað mikilvægt, eins og við þekkjum í allri orkuumræðunni, bæði um flutning og dreifingu, að til staðar séu undirstöður sem geta tekið á móti þessu. Eins og ég sagði áðan þá vitum við alveg að þetta gerist í rólegheitum og það verða ekki allir smábátar rafvæddir um leið og lögin verða samþykkt. Það er alveg ljóst að þetta er mjög kostnaðarsamt en eins og ég fór hér yfir þá myndi þetta gerast víða og væru það ekki bara þessi 100 tonn sem hér eru undir sem skipta þar máli. Það er auðvitað líka alveg ljóst að ekki allir voru sammála þeirri tölu um kostnað sem Landssamband smábátaeigenda setti fram. Það kom fram í umræðu í nefndinni við aðila að eðli máls samkvæmt, eins og ég sagði, verður þetta mjög dýrt í upphafi en þróunin er að eiga sér stað — Noregur er kominn talsvert framarlega — sem við fylgjumst væntanlega með. Við vitum auðvitað að hafist hefur verið handa við þetta nú þegar á Íslandi í samstarfi við erlenda aðila og það verður gaman að fylgjast með því.

Eitt af því sem er undir í því sem þarf að skoða hvað varðar styrki úr opinberum sjóðum og annað slíkt eru t.d. tollamálin. Ábending kom um það frá þeim sem hafa verið að skoða þessi mál og ég held að það geti allt eins átt við hérna eins og í þeim ívilnunum sem voru gagnvart bílakaupum. Einhverjir töluðu um að þetta væri sýndarmennska og því er ég ósammála. Þetta er ekki sýndarmennska. Það er gott að hafa lagabókstafinn undir, hafa einhverja ívilnun og síðan auðvitað eitthvað annað sem gæti hjálpað til við að ýta þessu úr vör. Hvar værum við ef við hefðum ekki hafist handa við að rafvæða bílaflotann? Einhvers staðar þarf að byrja og þetta er skrefið í þá átt.