Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

539. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Gísli Rafn Ólafsson) (P):

Virðulegi forseti. Hér komum við að máli sem ég hef valið að kalla nýju fötin keisarans. Ástæðan er sú að við getum hreinlega búist við því — þetta eru bara tölurnar sem við fengum frá ráðuneytinu — að einn, kannski tveir bátar á næstu fimm árum fari eftir þessu og það er kannski einungis vegna þess að þessi eini bátur eða tveir vilja geta fengið titillinn: Fyrsti strandveiðibáturinn sem knúinn er rafmagni. Það eru ekki nægir hvatar sem fylgja þessu frumvarpi og meiri hlutanum var bent á að það þyrfti að gera meira.

Mig langaði að nefna eitt dæmi: Verið er að veita 100 kg aukaafla sem gulrót í þessu frumvarpi fyrir eigendur til að skipta yfir í rafvæddan smábát. Ef viðkomandi strandveiðimaður gæti nýtt sér þessi 100 kg á hverjum degi í þá 48 daga sem lögin leyfa — það vita flestir að dagarnir fara ekki mikið upp fyrir 30 á flestum vertíðum, en ef farið væri upp í 48 daga og ef það næðist að veiða þessi 100 kg aukalega á hverjum degi þá væru þetta kannski 1,5 til 2 milljónir í aukatekjur. Á sama tíma kom fram að það að fara í annaðhvort nýsmíði eða breytingar á bát væru alla vega 30–40 milljónir. Ef það tekur 20 ár að ná þessu til baka, einungis á þessum 100 kg, þá er það bara ekki nógu stór gulrót. Það er mikilvægt að við horfum á þetta eins og t.d. frændur okkar Norðmenn eru að gera, eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir benti á, en þeir hafa nefnilega líka sett neikvæða hvata, þ.e. hvata til að draga úr því að menn noti óvistvæna orkugjafa. Þetta er oft kallað mengunarbótaregla og þannig væri kannski hægt að fá fjármagnið frá þeim sem menga til þess að gera þessa breytingu. Það er ekkert verið að horfa til þessa í frumvarpinu.

Á sama tíma erum við heldur ekki með innviðina. Ég benti á það fyrr í dag og geri það aftur, að án þess að hægt sé að hraðhlaða þessa báta í höfnunum — nú veit ég ekki hversu margir bátar eru að meðaltali í hverri höfn en ef allir bátarnir ætla að reyna að hraðhlaða á sama tíma þessa nokkra klukkutíma á næturnar sem strandveiðisjómennirnir sofa þá þurfum við ansi mikið rafmagn niður í hafnirnar. Við verðum þá að byrja að skipuleggja það. Ég er ekki endilega sammála því að þar sé best að byrja stærstu höfnunum heldur eigum við að byrja á þeim höfnum þar sem byggðarlögin eru kannski minni og brothættari og lifa á strandveiðunum.

Að lokum þá bendum við líka á í nefndarálitinu að við þurfum alltaf að hugsa hlutina til enda. Við bendum t.d. á að ef við ætlum að búa til nýja tegund af skipum, rafbáta, þá þýðir það að Samgöngustofa þarf að búa til alveg nýtt úttektarform og eftirlitsreglur til að fylgjast með og taka út þessa báta. En, eins og því miður gerist allt of oft hérna hjá okkur, við gleymum eftirlitshlutanum og setjum ekkert fjármagn í hann. Þetta hristir Samgöngustofa ekki bara fram úr erminni á meðan hún er líka að fylgjast með öllum hinum hlutunum sem hún þarf að fylgjast með. Hér hefðum við viljað sjá mun betri vinnubrögð og að ekki sé bara settur lítill kross á markmiðalistann og hakað þar við, heldur sé raunverulega verið að búa til raunhæfar aðgerðir sem hægt er að framkvæma, samfélaginu og loftslaginu til góðs.