154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:35]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir yfirferð á hans málefnasviði. Þar er svo sannarlega af mörgu að taka. Mér finnst umfjöllunin um lyfjaskort mikilvæg, en um það er fjallað í fjármálaáætlun að þar sé horft til framtíðar. Ég held þó að það sé ekki síður mikilvægt að horfa til nútíðar þegar kemur að áskorunum. Fyrir þinginu liggur mál frá hæstv. ráðherra — mig langaði að nota fyrri part ræðu minnar til að brýna hæstv. ráðherra í því að hafa augun áfram á því máli. Þar er um risastórt velferðarmál að ræða sem snýst ekki bara um aukna fjárveitingu heldur einnig um það að fylgjast með þróun og vera alltaf með augun á þessu. Ég ætlaði ekki beinlínis að spyrja út í þetta en fannst mikilvægt að koma þessu að því að þetta er eitt af stóru viðfangsefnum samtíma okkar.

Það sem mig langar hins vegar að spyrja út í og lýsa ánægju með er að það er greinargóður kafli í fjármálaáætlun um hjálpartækjamál og ég fagna því að verið sé að vinna eftir og vísa í skýrslu sem starfshópur skilaði árið 2019 um þau mál. En þarna kemur fram að heilbrigðisráðuneytið vinnur nú að heildarendurskoðun á reglugerð um styrki vegna hjálpartækja og einnig að því að fara að skoða það að hægt verði að fá hjálpartæki vegna tómstunda. Það kemur hins vegar ekkert fram um það hvenær við megum vænta þess að þær reglugerðarbreytingar verði tilbúnar. Mig langar að inna ráðherrann eftir því, hvort hann geti einhverju svarað um það. Þetta eru mál sem skipta svo sannarlega máli upp á samfélagsþátttöku fatlaðs fólks.