154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:33]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður óskar eftir skýrum svörum hvað þetta varðar, já eða nei. Ég þyrfti þá ekki að nýta þær tvær mínútur sem mér eru gefnar ef ég ætti eingöngu að svara með einsatkvæðisorðum. En það er rétt að það er á stefnuskrá minni sem ráðherra að samþykkt verði lög hvað varðar búsetuúrræði með takmörkunum. Ég var með þetta mál á þingmálaskrá minni fyrir þetta þing en ég hef ákveðið að seinka framlagningu á því frumvarpi til næsta þings, til haustsins, þar sem nú er í gangi starfshópur til að fara yfir fyrirkomulagið, hvernig því verður best fyrir komið hér á landi. Starfshópurinn hefur það verkefni að skoða bæði móttökumiðstöð og búsetuúrræði með takmörkunum fyrir þá einstaklinga sem hafa fengið synjun um dvöl á Íslandi og ber þar af leiðandi að yfirgefa landið.

Ég er ekki sammála hv. þingmanni í þeim efnum að upplausn sé í fangelsismálum. Það eru fjögur fangelsi í landinu sem starfa ágætlega. Það er rétt, sem hv. þingmaður nefndi, að biðlistar eru of langir. Við erum sömuleiðis að leita allra leiða til þess að stytta biðlistana. Í því augnamiði hef ég sett af stað starfshóp með það að markmiði að endurskoða allt fullnustukerfið hér á landi. Við munum leita allra leiða til þess að vinna niður biðlistana en ekki síður að leita leiða til að einstaklingar geti afplánað sína dóma og þá ekki endilega í harðlokuðu öryggisfangelsi.