154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:45]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða stöðu fangelsismála sem er, eins og skýrsla ríkisendurskoðanda ber með sér, í algjörum molum. Í skýrslu hans kom m.a. fram að samkvæmt Fangelsismálastofnun hefði skortur á fjármagni haft mikil áhrif á reksturinn. Fangelsin eru undirmönnuð sem aftur leiðir til minni nýtingar afplánunarrýma auk þess sem viðhald hefur setið á hakanum og aðstæður í fangelsunum eru víða óboðlegar, ekki hvað síst á Litla-Hrauni. Námi og endurmenntun fangavarða er verulega ábótavant samkvæmt skýrslunni. Þessu verður að breyta til hins betra enda er algengt að flóknar og erfiðar aðstæður komi upp í þessu umhverfi sem þarfnast sérhæfingar svo að starfsfólk geti leyst úr á sem bestan hátt. Úrræði fyrir kvenfanga eru í ólestri og aðskilnaður milli kynja er alls ekki tryggður þannig að þær afplána oft með karlföngum. Slíkt er óásættanlegt enda eru þessar konur almennt í viðkvæmri stöðu gagnvart þeim. Ríkisendurskoðandi taldi það einnig með öllu óverjandi að aðstöðumunur á grundvelli kynja væri jafn mikill og raunin er og ekkert sérstakt vistunarúrræði væri til staðar fyrir kvenfanga. Staðreyndin er að konur eru oft í verri stöðu en karlar þegar þær eru dæmdar til fangelsisvistar, bæði vegna andlegra og líkamlegra sjúkdóma. Áföll eru algengari á meðal þeirra en karla og félagsleg staða þeirra í fangelsum er slæm og líklegra að þær glími við vímuefnavanda og geðræn vandamál en karlar í sömu stöðu. Það er því augljóst að huga þarf að sérstökum úrræðum sem eru bara fyrir konur.

Sérstakt áhugamál mitt, þegar staða fanga er skoðuð, er þegar þeir koma út í samfélagið aftur að afplánun lokinni. Þar mæta þeim gríðarlega margar hindranir. Eitt af því sem þarf að huga sérstaklega að er að þeir fái aðstoð varðandi fjármál sín, við að koma þeim á hreint. Það að semja við lánardrottna er mikill frumskógur og vex mörgum í augum, alveg sama hver félagsleg staða þeirra er. En fyrir fanga sem eru með skuldir á bakinu sem hafa safnað vöxtum allan tímann sem þeir voru í afplánun og því vaxið þeim langt yfir höfuð getur þetta litið út eins og að hefja göngu á Everest fyrir óvanan fjallgöngumann, auk þess sem traust þeirra á kerfum, hvaða nafni sem þau nefnast, er verulega laskað. Sé ekki tekið á þessum málum með föngum þegar þeir koma úr afplánun er auðveldasta leiðin oft að brjóta aftur af sér til að afla peninga. Þetta þarf að laga.

Ég vil því spyrja (Forseti hringir.) dómsmálaráðherra: Er verið að vinna að sérstöku úrræði fyrir kvenfanga (Forseti hringir.) og hvenær er gert ráð fyrir að slíkt úrræði verði tilbúið? Hefur dómsmálaráðherra einhverjar áætlanir um að bregðast við fjárhagsvanda fanga þegar þeir ljúka afplánun þannig að þeir fái aðstoð við að vinna úr þeim málum?