154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:18]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þegar ég tala um litla útlendingafrumvarpið á ég við frumvarpið sem var samþykkt í fimmtu tilraun áður en hæstv. félagsmálaráðherra núllaði það nokkurn veginn út. Ég hef kannski stundum líka kallað það frumvarp sem enn er óafgreitt litla útlendingafrumvarpið nr. 2 — ekki það að ég sé ekki hlynntur því. Ég held að þetta séu mjög æskilegar og aðkallandi breytingar og hefði átt að ráðast í þær fyrir mörgum árum síðan. Vonandi klárast það sem fyrst. En það tekur samt ekki á heildarumfangi vandans. Það verður ekki gert nema með endurskoðun útlendingalaganna í heild, ekki með því að stagbæta þau smátt og smátt með frumvörpum sem komast kannski í gegn í fimmtu tilraun. Fyrst að þessi ríkisstjórn var kynnt á þeim forsendum að hún ætti ekki hvað síst að taka á útlendingamálum, hvers er að vænta, hvað kemur nýtt fram? Það var áður búið að kynna heildarsamkomulag ríkisstjórnarinnar í útlendingamálum sem var á óskalista Vinstri grænna um aukna þjónustu og svo mál hæstv. dómsmálaráðherra sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur reyndar gert fyrirvara við.