154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:43]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Mig langar að elta orð hæstv. dómsmálaráðherra sem hún lauk ræðu sinni á, um framúrskarandi aðstæður fyrir lögreglu. Hún var rétt í þessu að tala um að við sem tölum fyrir ábyrgum ríkisfjármálum og aðhaldi í ríkisrekstri eigum að fallast á að farið verði í flatan niðurskurð og flata aðhaldskröfu á löggæslu. Þetta er ekki mín fjármálaáætlun, þetta er ekki fjármálaáætlun eins og Viðreisn hefði lagt hana fram. Það leiðir ekki af sjálfu sér að það að þú talir fyrir ábyrgum fjármálum geri það að verkum að þú ætlir að höggva í grunnstoðirnar. Það getur ekki gengið upp til lengri tíma litið að halda áfram að forgangsraða í ríkisfjármálum með þeim hætti að við séum eilíflega í því gagnvart lögreglu, gagnvart fangelsunum — við erum með nýlega skýrslu Ríkisendurskoðunar þaðan. Fangelsisdómar eru að fyrnast. Það gengur ekki upp að ætla að leggja sérstaka áherslu á aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi ef grunnurinn er ekki í lagi. Það er fyrsta skrefið, síðan er hægt að taka samtalið og ég vil að við tökum samtal um það hvernig við gerum betur. En framúrskarandi starfsumhverfi fyrir lögregluna er hagsmunamál fyrir þjóðina alla. Þar hlýtur fyrsti punkturinn að vera sá að löggæslan sé fjármögnuð.

Það bara getur ekki verið að hæstv. dómsmálaráðherra standi hér og lýsi stórkostlegum breytingum í samfélagsgerðinni, lýsi því hverjar aðstæðurnar eru og hver ágjöfin er, og ætli að koma með flata aðhaldskröfu á löggæsluna. Þetta er enn ein birtingarmynd þess að ríkisstjórnin er í algeru öngstræti með það hvernig hún horfir á verkefnin sín. Hvernig dettur mönnum í hug að ætla að byrja á löggæslunni í stað þess að fara í að rýna í einhvern annan rekstur? Ekki eru öll verkefni ríkisins jafn aðkallandi.