154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:45]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og áhuga hennar á góðri og öflugri löggæslu í landinu, við deilum þeirri skoðun. Þess vegna er ekki aðhaldskrafa á lögregluna á næsta ári. Það er engin aðhaldskrafa á lögregluna á næsta ári en það kemur aðhaldskrafa 2026–2029. Við þurfum líka að hafa í huga að það fara ríflega 20 milljarðar í löggæslu á landinu á ári hverju. Það er umtalsvert fé. Hv. þingmaður hefur hér í vetur og í gegnum tíðina talað mikið fyrir hagræðingu í rekstri og því að fara vel með fé. Það hafa farið umtalsverðir peningar í tíð þessarar ríkisstjórnar, frá 2017, til lögreglunnar. Það hefur skipt máli. Það hefur borið árangur. Nú erum við að sigla inn í aðhaldstímabil og það er ekki skrýtið að svo sé. Við þurfum að ná böndum á ríkisrekstrinum. Við erum sömuleiðis með óvænt útgjöld við þær hamfarir sem orðið hafa á Reykjanesi. Ég tel að við höfum gert eins og við getum til þess að standa vörð um lögregluna. Og það mun ég gera áfram.