154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[19:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Stutta svarið er það að í mínum huga er þetta einfaldlega það sem er rétt að gera. Auðvitað hefði ég viljað geta gengið lengra og náð því viðmiði sem við höfum sagst vera sammála um, sem er 0,7% af vergri landsframleiðslu. Norðurlöndin eru komin lengra í þá veru og ég vona að við höldum áfram með þennan stíganda til að komast þangað.

Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að land sem tekur sig alvarlega, er fullvalda og sjálfstætt, er ríkt og ratar einna efst á flesta lista sem samfélög vilja vera á, og segist í orði vilja vera þjóð meðal þjóða, á að sinna þróunarsamvinnu sem slíkt. Við erum sömuleiðis land sem þáðum þróunaraðstoð til ársins 1974. Ég veit að hér eru ýmsar aðstæður og tækifæri með öðrum hætti en hægt er að ætla að geti gerst á jafn skömmum tíma annars staðar. En þetta sýnir samt hvað hægt er að gera. Við værum ekki á þessum stað ef við hefðum ekki fengið aðstoð á sínum tíma.

Til viðbótar veit ég vel að heimurinn er bæði fallegur og ljótur og það er alls konar illska til. Það er oft mikil jafnvægislist að reyna að stíga inn í umræður sem eru gríðarlega flóknar og nánast stundum vonlaust að taka þátt í. Ég mun samt ekki hætta að segja það að ég trúi því að hver og einn sem hingað kemur og hér fæðist á auðvitað að fæðast með ákveðin réttindi. Við erum einfaldlega ekki komin lengra í samfélagi þjóðanna en svo að enn eru stór svæði sem ýmist geta ekki veitt fólki þau réttindi eða gera það ekki af pólitískum ástæðum. Það er auðvitað hluti af okkar þróunarsamvinnu, sem ég er sammála að eigi að vera til staðar, til að mynda þessi mannréttindamiðaða þróunaraðstoð út frá jafnrétti kynja og áherslu á hinsegin fólk. Og ég er stolt af því að við stundum það.