131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[15:11]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim sem rætt hafa um þessa tillögu til þingsályktunar um ferðamál að framlagning hennar er mikið fagnaðarefni. Það hefur klárlega skort skýran markmiðaramma utan um uppbyggingu ferðaþjónustunnar sem hefur vaxið feikilega ört á liðnum árum og er orðin ein af helstu atvinnugreinum okkar. Hins vegar er mjög margt sem þarf að lagfæra og breyta til að ramminn sé með þeim hætti að ferðaþjónustan geti dafnað áfram sem öflug atvinnugrein, sérstaklega úti á landi þar sem hefðbundinn landbúnaður hefur átt undir högg að sækja eða lagst af í talsverðum mæli, búin þjappast saman og breytast. Uppgangur ferðaþjónustunnar hefur því verið mikil vítamínsprauta í sveitirnar og hinar dreifðu byggðir. Hægt er að nefna mjög mörg góð dæmi um það hvernig uppbygging ferðaþjónustunnar hefur tekist vel til víða úti á landi. Segja má hún sé undirstaða byggðar nú á einstökum svæðum eins og hefðbundnu búnaðargreinarnar voru áður. Ferðaþjónustubúskapur hefur sums staðar tekið við og er orðinn að undirstöðu samfélaga víða.

Tækifærin eru mjög mikil og hægt að efla ferðaþjónustuna mjög. Auðvitað þarf að skapa ferðaþjónustunni þau skilyrði að þetta sé ekki þvílík áhættufjárfesting að það sé nánast fyrir ofurhuga eina að fara út í umfangsmikinn ferðaþjónusturekstur. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra og annarra sem hér hafa talað þarf að sjálfsögðu fyrst og fremst að lengja tímann. Því fylgir ýmislegt annað.

Það sem ég vildi nefna á þeim stutta tíma sem ég hef er að það þarf að sjálfsögðu að huga sérstaklega að menntun starfsfólks í ferðaþjónustunni. Það helst mjög í hendur við lengingu á ferðaþjónustutímanum því þar sem greinin hefur mestan part verið starfrækt yfir sumartímann, fjóra, fimm mánuði á ári, hefur hún byggst mjög upp á ungu fólki sem er að vinna í skólahléum sínum og útlendingum.

Ég kom inn í eldhús á virðulegu og stóru hóteli á Suðurlandi um daginn, Hótel Örk í Hveragerði, þar sem þorri mannskapsins var útlendingar, fólk sem hafði starfsleyfi og var að vinna hér, fólk af ótrúlega mörgum þjóðernum, ég man ekki hvað yfirmaðurinn nefndi að það væru mörg þjóðerni þar við störf. Það þarf því, um leið og ferðaþjónustutíminn er lengdur, að mennta mannskapinn og koma þar með á miklu meiri festu í starfsmannaveltuna þannig að hún sé ekki með þeim hætti að inn komi ungt fólk sem hefur litla þekkingu og stoppar mjög stutt við. Það þarf töluvert meira af fagfólki til að bera uppi ferðaþjónustuna sem mundi að sjálfsögðu sjálfkrafa efla ferðaþjónustuna verulega, bæta alla þjónustu og allt umhverfi í kringum ferðamennina, bæði útlenda og innlenda. Menntun starfsfólks mundi tvímælalaust auka verulega á festuna og tryggja að upp kæmu hópar af fagfólki í ferðaþjónustu sem héldi sig við sitt fag og sem gerði það að verkum að auðveldara væri að lengja ferðaþjónustutímann.

Fjarnámið skiptir þarna miklu máli um leið og það er mjög mikilvægt að fjölbrautaskólarnir um allt land taki upp áfanga í styttri námsbrautum, að búnar verði til styttri námsbrautir og sérstök fög utan um hvers konar þjónustu, eins og við höfum rætt áður á hinu háa Alþingi í vetur í sambandi við þingsályktunartillögu um eflingu starfsnáms, að efla starfsnámið og fjölga styttri námsbrautum þannig að réttindanám hvers konar standi fólki til boða og það verði hvatt til þess að stunda það. Vísir að því er í mörgum skólum, í Verkmenntaskólanum á Akureyri og í fjölbrautaskólum víða um land er vísir að slíkum brautum þar sem vel hefur til tekist og hefur alveg án nokkurs vafa bætt ferðaþjónustuna og eflt umhverfi hennar. En það þarf að auka menntunina eins og lagt er til í tillögunni og efla ferðaþjónustumenntunina mjög mikið og eins og þar segir: „Gæði menntunar skal tryggja með sérhæfingu menntastofnana þar sem við á.“ Og þá vildi ég sérstaklega nefna fjarnámið. Símenntunarstöðvarnar og fræðslunetin víða um land hafa opnað fólki úti um hinar dreifðu byggðir ótrúlega mörg ný tækifæri til að bæta við menntun sína, endurmenntast og menntast í nýjum greinum án þess að þurfa að flytja búferlum. Það gerir miklum fjölda Íslendinga í raun og veru kleift að menntast og stunda nám, fólki sem á einfaldlega ekki kost á að taka sig upp eða stunda námið annars staðar. Þessar símenntunarstöðvar og fræðslunet skila hundruðum fólks á hverju ári í gegnum hvers konar nám og fjarnám í háskólanámi til dæmis.

Ekki er nógu vel búið að símenntunarstöðvunum, t.d. búa símenntunarstöðvarnar á Suðurlandi og Suðurnesjum við það vegna einhverrar óljósrar skilgreiningar að fá helmingi lægri fjárframlög en t.d. símennntunarstöðvarnar á Vesturlandi og Austurlandi. Er ég þó ekki að segja að símenntunarstöðvarnar þar fái of mikið, alls ekki, þær eru vel að því komnar og eru öflugar í takti við það. En það þarf að auka framlög til hinna símenntunarstöðvanna þannig að þær geti t.d. sinnt fjarnámi og aukinni menntun í ferðaþjónustu. Sérstaklega þarf að búa þannig um hnúta að þær fái greitt fyrir fjarnámið á háskólastigi en í dag inna þær það að af hendi án þess að fá nokkuð fyrir það. Þær eru illa haldnar fjárhagslega, eins og t.d. fræðslunet Suðurlands sem rekið hefur verið með halla núna tvö ár í röð að forsvarsmenn þar eru alvarlega að hugsa um að leggja af framboð, hætta að bjóða fólki upp á að stunda fjarnám í háskólanámi einfaldlega af því að símenntunarstöðin fær ekki greitt fyrir það og þar af leiðandi er ekki hægt að halda því úti þó svo að það sé að mörgu leyti að verða undirstaða stöðvarinnar.

Það yrði stórt skref aftur á bak ef fræðslunetið yrði neytt til þess að hætta að bjóða upp á háskólanámið og væri að mörgu leyti alvarlegt áfall fyrir það sem við erum að ræða hér, að efla menntun í ferðaþjónustunni. Ferðaþjónustan er borin uppi af fólki um allt Ísland, hringinn í kringum Ísland, fólki úti um hinar dreifðu byggðir sem sér hana sem nýjan atvinnumöguleika eftir að hinar hefðbundnu greinar hafa lagst af. Þess vegna þurfum við að standa vel að menntunarframboðinu, sérstaklega í gegnum fjarnámið og símenntunarstöðvarnar. Ég vona að hæstv. samgönguráðherra og aðrir sem fjalla um málið hér taki þátt í að beita sér fyrir því að umhverfi þeirra verði eflt. Það verði gert þannig að þær búi við mun betra fjárhagslegt atlæti og geti staðið undir þeim kröfum sem við eigum og þurfum að gera til þessara nýju menntastofnana sem opnað hafa hinum dreifðu byggðum ótrúlegan fjölda tækifæra til að skapa ný tækifæri í hvers konar uppbyggingu á smáiðnaði og þjónustu og ekki síst hvað varðar uppbyggingu ferðaþjónustunnar.