131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[15:44]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér vannst ekki tími til að koma inn á nokkur atriði í fyrri ræðu minni. Reyndar er ekki svo óskaplega langt síðan að umhverfismál sem slík komust fyrir alvöru og með formlegum hætti á dagskrá ferðaþjónustunnar eða að farið var að huga að sambúð þessara þátta, atvinnugreinarinnar sem slíkrar annars vegar og síðan umhverfisverndar og nauðsyn þess að hlúa að náttúrunni og varðveita hana. Mikið vatn hefur til sjávar runnið frá því sú umræða fór af stað að einhverju marki fyrir um 15 árum síðan. En nú þykja þau mál sjálfsögð og er vel.

Langstærsta aðgerðin sem fyrirhuguð er í þessu efni er stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, þ.e. hins stóra þjóðgarðs eða verndarsvæðis sem umlykur Vatnajökul og nær jafnvel frá strönd til strandar, frá Skeiðarársandi í suðri, norður um Vatnajökul og svæðið norðan hans og allt til sjávar við botn Öxarfjarðar. Hluti af því yrði friðlýsing á Jökulsá á Fjöllum, sem er sem betur fer að verða nokkuð óumdeilt að stefna beri að, mál sem ég hef barist fyrir lengi og flutt tillögur um á þingi. Reyndar liggur ein slík enn fyrir þinginu til umfjöllunar.

Í öðru lagi vildi ég nefna fyrirbærið svarta atvinnustarfsemi eða leyfislausa starfsemi og skattsvik og að slíkt beri að uppræta. Það er að sjálfsögðu gott að menn hafi hug á því. Það er enginn vafi á því að ferðaþjónustan er ein þeirra greina sem gæti orðið undirorpin því, ef ekkert er að gert og er það örugglega í einhverjum tilvikum nú þegar, að þar gæti tilhneigingar til að reyna flytja inn ódýrt vinnuafl og nota í óþrifalegustu og óvinsælustu störfin. Það á sama hátt óþolandi að sumir greiði sína skatta og sínar skyldur og standi skil á öllu til samfélagsins á meðan aðrir gera það ekki og hafa samkeppnisforskot sem því nemur.

Í þriðja lagi, og það sem ég ætlaði nú aðallega að gera að umtalsefni, er mikið hugðarefni mitt sem er hér nefnt á nokkrum stöðum. Það er um mikilvægi þess að dreifa álagi af ferðaþjónustu um landið og byggja upp heilsársferðaþjónustu. Þetta tvennt hangir í mörgum tilvikum saman. Staðreyndin er sú að virkustu aðgerðirnar til að byggja upp heilsársferðaþjónustu eru í mörgum tilvikum einnig til þess fallnar að dreifa ferðaþjónustunni um landið. Þá á ég sérstaklega við að stórbæta samgöngur og tryggja heilsárssamgöngur sem nái m.a. til perlna, þess aðdráttarafls sem menn velja hér að kalla „segla“ ef ég les rétt í innan gæsalappa að vísu, sem mér finnst heldur leiðinleg orðanotkun. Menn mættu glíma við að reyna að finna eitthvað skemmtilegra en þetta eðlisfræðilega fyrirbæri sem dregur að sér ferðamenn svipað eins og segull dregur að sér stálflísar. Hér er auðvitað átt við fyrirbæri með sérstakt aðdráttarafl, sem laða til sín ferðamenn og þá jafnt vetur sem um sumar. Reyndar er engin ástæða til að ætla annað en að ferðamennskan á Íslandi geti í fyllingu tímans jafnvel enn þá frekar orðið á veturna en á sumrin. Það er reynslan þar sem mönnum hefur tekist virkilega vel til á norrænum svæðum, jafnvel hánorrænum slóðum eins og í Norður-Finnlandi, að það reynist einfaldlega auðveldara að selja veturinn en sumarið. Hann er sérstakari. Það er meira nýnæmi í því fyrir ferðafólk af suðlægum slóðum að komast í frost og fimbulkulda, upplifa snjó og norðurljós frekar en sumarið, jafn sérstakt og það getur þó verið á okkar slóðum með miðnætursólinni og öllu því.

Ég held að til að dreifa álaginu og byggja upp heilsársþjónustu þurfi í fyrsta lagi að stórbæta samgöngur. Það þarf að treysta heilsárssamgöngur á þeim svæðum og jafnvel inn til landsins á köflum þannig að menn geti nýtt það aðdráttarafl sem svæðin hafa upp á að bjóða. Þeir kostir eru þegar til staðar á suðvesturhorni landsins, þar er hinn frægi Gullfoss-Geysis-hringur og menn komast vestur að Snæfellsjökli, í Bláa lónið og í hvað það nú er sem hér dregur að. En því miður vantar þetta sums staðar annars staðar. Í öðru höfuðvígi ferðaþjónustunnar, sem er Miðnorðurland og Mývatnssveit, er mönnum ákaflega miklar takmarkanir settar vegna þess að miklar náttúruperlur eins og Dettifoss, sem hefur nú ekki síður aðdráttarafl á vetri en sumri, er lítt aðgengilegur á löngu tímabili.

Ef menn ætla í alvöru að dreifa ferðaþjónustunni um landið, þá verður að brjóta upp hinn miðlæga suðvesturhorns-strúktúr í ferðaþjónustunni. Það gengur ekki að 95–98% af öllum ferðamönnum komi og fari um sama millilandaflugvöllinn á Reykjanesi. Það verður að ná upp valkostum sem bjóða ferðamönnum upp á fjölbreyttari ferðamöguleika, fjölbreyttari aðkomu eða brottför frá landinu. Með öðrum orðum beint flug eða tengingar t.d. á höfuðflugvellina á Norðurlandi og Austurlandi. Því fyrr sem það gerist því betra. Stjórnvöld eiga að beita sér í þeim efnum. Það dugir ekki að selja ferðaþjónustu rekstraraðilum, þó mikilvægir og stórir séu og geri margt mjög vel eins og Flugleiðir eða Icelandair eða hvað á að kalla það í dag, sjálfdæmi í þeim efnum. Ef þröngir rekstrarhagsmunir slíkra aðila ráða einir ferðinni er hætt við því að menn missi sjónar á öðrum hlutum eins og heildarhagsmunum af því að dreifa ferðaþjónustunni.

Ég tel brýnt að ráðast í þetta verkefni ef við eigum að ráða við 500–800 þús. ferðamenn til og frá landinu innan örfárra ára. Við eigum að bjóða upp á fjármagn á tilteknu árabili til markaðssetningar á beinu flugi til og frá Akureyri og Egilsstöðum. Ef það dugar ekki til eiga menn að mínu mati einfaldlega að hugleiða að bjóða slíka þjónustu út og sá sem býður hagstæðast í það haldi uppi tilteknu framboði á flugi, t.d. frá stöðum eins og Kaupmannahöfn og London. En það þyrfti að fá tiltekinn stuðning til þess á meðan það er byggt upp. Það þýðir ekki neitt að reyna að segja mér þá draugasögu í björtu að hægt sé að hafa yfir á milli 30 og 40 flug á viku í sumar til Kaupmannahafnar en ekki eitt einasta til Akureyrar. Hvers vegna skyldi ekki með réttri markaðssetningu vera hægt að tengja hlutina þannig saman að menn eigi þann valkost að lenda í Keflavík, hefja ferð sína á suðvesturhorninu, enda á Akureyri eða Egilsstöðum og fljúga þaðan út úr landinu eða öfugt? Auðvitað væri það hægt ef menn settu það inn í sitt víðtæka markaðsnet. Ég skora á samgönguráðherra og á nýja stjórnendur Flugleiða, þó með mikilli virðingu fyrir þeim sem þar eru að láta af störfum, vinum mínum þar, að gera skurk í þessum efnum. Það er löngu tímabært að láta ekki útlendinga gera tilraunir sem síðan mislukkast til að fljúga frá Akureyri og Egilsstöðum. Við eigum að gera það sjálf.