132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:30]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi skýrslu utanríkisráðherra. Ég spurði sérstaklega um það í ræðu minni hér áðan hvernig á því stæði að hingað hefði ekki borist skrifleg skýrsla utanríkisráðherra um það sem unnið væri í utanríkisráðuneytinu og hvernig okkar utanríkisþjónusta hefði verið að vinna að málum víðs vegar um heiminn. Það er mjög mikilvægt að við höfum innsýn í það hér í þinginu og ég vænti þess að það sé mikilvægt fyrir þá sem sitja í utanríkismálanefnd. Hér var ég að ræða við varaformann utanríkismálanefndar sem hefði kannski átt að vera búinn að kanna hvort eitthvert slíkt plagg væri ekki á leiðinni — það hefði átt að vera hluti af hans starfsskyldu sem þingmanns og varaformanns utanríkismálanefndar, fyrst hann fer með það verkefni.

Ég ítreka að ég vil spyrja hvernig á því standi að skýrsla hefur ekki borist síðan í apríl 2004. Það er síðasta skriflega skýrslan sem komið hefur hingað inn um þessi mál.

Hvað varðar NATO þá er það nú einu sinni svo að það er gert ráð fyrir því sérstaklega í varnarsamningnum að farið sé með þessi mál inn á vettvang Norður-Atlantshafsbandalagsins ef menn telja endurskoðunar þörf. Ég geri ráð fyrir að sú uppákoma sem hér hefur orðið í þessu varnarsamstarfi kalli á einhvers konar endurskoðun á varnarsamningnum. Það er ljóst að eins og hann er framkvæmdur núna er framkvæmdin einhliða af öðrum aðilanum. Það er annar aðilinn sem ákveður einhliða hver framkvæmdin skuli vera og það breytir auðvitað talsverðu um eðli samningsins. Íslensk stjórnvöld hafa hingað til lagt áherslu á að hann skuli framkvæmdur tvíhliða. Annar aðilinn gæti ekki ákveðið framkvæmd samningsins. Það er breytt. Bandaríkjamenn hafa ákveðið einhliða framkvæmd samningsins og það hlýtur að kalla á endurskoðun hans.