132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:45]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Það er eðlilegt að umræður um utanríkismál eins og nú stendur á skuli að verulegu leyti snúast um öryggis- og varnarhagsmuni okkar Íslendinga. Eins og við munum kom það okkur nokkuð í opna skjöldu þegar Bandaríkjamenn tóku af skarið og tilkynntu að þeir sæju sér ekki lengur fært að staðsetja hér á landi þotur sínar og þyrlur. Auðvitað varð mörgum heitt í hamsi vegna þess að við höfðum treyst á varnarsamning Bandaríkjanna og það góða samstarf sem við höfum átt um áratuga skeið. En heimurinn breytist og þeir hafa ekki lengur tök að að rækja varnarskyldur sínar með sama hætti og áður en það kom brátt í ljós að þeir vildu halda við varnarsamninginn og auðvitað hljótum við nú að horfa til þess hvernig við getum tryggt varnir og öryggi þjóðarinnar með öðrum hætti.

Hæstv. utanríkisráðherra minntist m.a. á þann möguleika að orrustuþotur í nálægum löndum, í Englandi, gætu tekið að sér eftirlit umhverfis Ísland og á Íslandi með sama hætti og gert er í Slóveníu, Lúxemborg og Eystrasaltsríkjunum. Þetta er kostur sem við hljótum að athuga mjög gaumgæfilega og einnig hljótum við að ætlast til þess að Bandaríkjamenn leggi skýrlega fram þær skoðanir og vilja þeirra til að standa við skuldbindingar sínar í þeirri nýju varnaráætlun sem nú er unnið að.

Segja má að upp úr standi við þessar umræður sú skýra yfirlýsing sem formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, gaf þegar hún rifjaði upp skilagrein frá framtíðarhópi Samfylkingarinnar þar sem segir að Samfylkingin vilji ekki segja upp varnarsamningnum. Formaður Samfylkingarinnar tók sérstaklega fram að þessi væri enn stefna Samfylkingarinnar að segja ekki upp varnarsamningnum við Bandaríkin þó svo að hv. þingmaður hafi að því leyti reynt að fara bil beggja með því að leggja upp úr varnarviðbúnaði Evrópusambandsins. Mun ég víkja að því síðar sem á hinn bóginn lýsir Evrópuáhuga Samfylkingarinnar og þeim vilja hennar að ganga í Evrópusambandið, sem er annað mál.

En aðalatriðið er sem sagt að þessir þrír stjórnmálaflokkar, Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin, virðast á þessu augnabliki allir vera sammála um að hugsa beri varnarhagsmuni og öryggishagsmuni Íslands á grundvelli varnarsamningsins og þrýsta á um að Bandaríkin standi við þær skuldbindingar sem þar hafa komið fram, með sama hætti og við viljum standa við skuldbindingar okkar. Þetta stendur upp úr að minni hyggju í þeim efnisatriðum sem stjórnarandstæðingar hafa lagt hér fram.

Í þessu ljósi þóttist ég kenna hjáróma hljóm frá gömlum tíma og gömlum skoðunum hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þegar hún hafði sérstaklega við orð að við sjálfstæðismenn virtumst hallir undir öryggissamfélag við Bandaríkin. Það var einmitt þetta öryggissamfélag við Bandaríkin sem hún sjálf var að lýsa sem skoðun og stefnu Samfylkingarinnar.

Það hefur borið á því bæði í tillöguflutningi Samfylkingarinnar og líka í ræðum hennar á Alþingi í dag að við Íslendingar höfum ekki staðið okkur varðandi undirbúning nýrrar varnaráætlunar. Hv. þingmaður hafði við orð að það sýni vanrækslu ríkisstjórnarinnar að hafa ekki byggt upp sérfræðiþekkingu í varnar- og öryggismálum á Íslandi. Þessi ummæli koma nokkuð á óvart vegna þess að þau falla af munni hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem lengst af sínum pólitíska ferli var andvíg aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu. Ég man satt að segja ekki eftir því fyrr en þá nú að hv. þingmaður hafi látið orð falla á þá lund að skilja megi sem svo að hún telji að við eigum að koma upp vísi að íslenskum her hér á landi, sem hlýtur að vera forsendan fyrir því að við getum byggt hér upp sérfræðiþekkingu í varnarmálum sem ekki verður gert án þess að um her sé að ræða. Broslegt var að heyra hv. þingmann halda því fram að í Írlandi séu það ekki herforingjarnir sem marki stefnuna í varnar- og öryggismálum heldur alls konar félagasamtök úti í bæ á þeim forsendum að til þeirra hafi verið leitað um hugmyndir að ýmsum atriðum varðandi öryggis- og varnarmál Íra. Auðvitað er það á valdi hins írska hers að byggja upp slíka varnaráætlun og slíka stefnu eins og hér á landi en við Íslendingar verðum hins vegar nú að taka á okkur meiri ábyrgð en áður að því leyti að sérfræðingar okkar hljóta að koma með beinni hætti en áður að varnaráætlun okkar Íslendinga eftir að Bandaríkjamenn kjósa að draga flugvélar sínar héðan á brott. Við þessar breyttu kringumstæður hljótum við að leggja okkur fram um að axla okkar byrði, taka meiri þátt í vörnum en verið hefur. Það hefur líka komið fram í sambandi við yfirlýsingar m.a. hæstv. utanríkisráðherra að við munum leita eftir samstarfi um rekstur á þyrlum og öðrum slíkum öryggisbúnaði við nálægar þjóðir.

Það er öldungis rétt sem fram kom hjá utanríkisráðherra að þessi nýja staða hlýtur að varpa upp þeirri spurningu hvernig rétt sé að standa að rekstri flugvallarins í Keflavík og flugstöðvarinnar. Ég er fullkomlega sammála því að rétt sé að greina þann rekstur frá almennum rekstri ríkisins og stofna sérstakt félag um rekstur flugvallarins og flugstöðvarinnar með sjálfstæðan fjárhag. Reynslan hefur raunar sýnt að þá sé affarasælast að hugsa sér hlutafélag í því sambandi. Gerð var könnun á því á meðan ég var samgönguráðherra af Gunnari Finnssyni, sem vann þá hjá Alþjóðaflugmálastofnuninni, hvort slík rekstrareining gæti staðið undir sér. Það kom í ljós á þeim tíma að flugumferð væri ekki nægileg til að halda uppi sömu þjónustu á flugvellinum og nú er. Hins vegar hefur alþjóðlegt flug um flugvöllinn vaxið svo mjög á þeim tíu árum sem síðan eru liðin að ekkert á að vera því til fyrirstöðu að hægt sé að reka ekki aðeins Keflavíkurflugvöll heldur helstu flugvelli landsins undir sérstökum hatti sem sérstök fyrirtæki, sem geti staðið undir sínum rekstri og þó veitt sömu þjónustu og nú er og við svipuðu verði, kannski lægra verði en nú er. Það mál opnast nú eftir að herþoturnar fara og við eigum þá að koma inn í það tómarúm sem þar hefur skapast. Fyrir tíu árum voru aðalerfiðleikarnir að sjálfsögðu fólgnir í því að Bandaríkjamenn höfðu á þeim tíma miklum þjónustuskyldum og rekstrarskyldum að gegna varðandi flugvöllinn.

Ég sagði áðan að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði vísað mjög til Evrópu í sambandi við varnir okkar Íslendinga en lagði þó höfuðáherslu á að Samfylkingin vildi semja á grundvelli varnarsamningsins við Bandaríkin, sem ég tel vera góð teikn því vitaskuld hefur Evrópusambandið ekki því hlutverki að gegna að tryggja hernaðarlegt öryggi aðildarríkja sinna, það er ekki varnarbandalag og getur ekki tekið á sig slíkar skuldbindingar.

Við brostum margir þegar við sáum í fjölmiðlum að Samfylkingin hefði nú stofnað þverpólitíska nefnd um varnar- og öryggismál og skipað Jón Baldvin Hannibalsson formann þeirrar nefndar. Við brostum í fyrsta lagi vegna þess að það sýnir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er með þessum hætti að sneiða fram hjá Össuri Skarphéðinssyni, varpa skugga á hann sem fyrsta fulltrúa Samfylkingarinnar í utanríkismálanefnd, taka það verkefni af honum sem sjálfsagt væri að hann mundi gegna ef Samfylkingin vildi á annað borð marka trúverðuga stefnu í utanríkismálum. Össur Skarphéðinsson er það að auki formaður sendinefndar okkar hjá NATO svo af þeim sökum má kannski segja að hann sé ekki heppilegur leiðtogi í jurtagarði Samfylkingarinnar í pólitískum skilningi.

En það er annað sem líka veldur því að maður hlýtur að telja að valið á Jóni Baldvini Hannibalssyni sem formanni þverpólitískrar nefndar í varnar- og öryggismálum sé heppilegt og það er að hann er sjálfur þverpólitískur í þessum málaflokki. Hann skilur þau sjónarmið sem sett eru fram og hafa verið sett í varnar- og öryggismálum síðastliðin 50 ár. Hann skilur líka þegar sjónarmiðum hefur verið hafnað í varnar- og öryggismálum á síðustu 50 árum því að hann hefur sjálfur haft allar þær pólitísku skoðanir á þessum tíma sem uppi hafa verið í varnar- og öryggismálum okkar Íslendinga. Við höfum raunar tekið eftir því nú, þegar við höfum horft á hann í sjónvarpi og hlustað á hann, að hann virðist kominn frá þeirri stefnu sem hann fylgdi þegar hann var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, og ég fylgdi honum fast að málum, og virðist nú kominn fram úr sjálfum sér og stefna að upphafi sínu og vera vinstri sinnaðri en hann hefur verið nokkru sinni fyrr á síðastliðnum 30 árum.

Ég vil að síðustu segja að það sé kannski eðlilegt að stjórnarandstaðan reyni að þyrla upp moldryki í þessu máli, reyna að nýta sér það í pólitískum skilningi eins og við höfum orðið vör við í þingsalnum, sérstaklega frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Auðvitað kemur ekki á óvart að hv. þm. Ögmundur Jónasson skuli segja hér að sú ógn sem helst steðji að okkur séu Bandaríkin. Þetta er sá tónn sem við höfum heyrt frá Alþýðubandalaginu alla tíð, frá Vinstri grænum og frá forvera Alþýðubandalagsins, og kemur ekki á óvart. Hv. þm. Ögmundur Jónasson er samkvæmur sjálfum sér í utanríkismálum eins og hann hefur verið.

Ég hygg á hinn bóginn að það sé, eins og ég sagði áðan, líka eftirtektarvert að þrátt fyrir stóryrði hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og þrátt fyrir þann tón sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir reynir að gefa annað slagið hér í þingsalnum, þá skíni þó í gegnum ummæli hennar að hún sé sammála ríkisstjórninni um að við eigum að taka alvarlega á varnar- og öryggismálum okkar Íslendinga. Samfylkingin er sammála okkur í ríkisstjórnarflokkunum um að við eigum að láta reyna á það til þrautar að samkomulag náist við Bandaríkin á grundvelli varnarsamningsins, sem við getum vel við unað og sem tryggi öryggishagsmuni okkar í víðasta skilningi þess orðs. Þetta er það sem upp úr stendur. Það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson kallar þríflokkana, samkomulag þríflokkanna um að standa saman um öryggishagsmuni okkar Íslendinga. Mér finnst þetta góður og ágætur tónn.

Ég vil að síðustu taka undir með hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni með því að segja að við hljótum að vanda okkur mjög þegar við stöndum fyrir því að byggja upp þyrlusveitir okkar og björgunarbúnað. Ég fagna því að fram er komið á Alþingi nýtt stjórnarfrumvarp um Landhelgisgæslu Íslands sem staðfestir og sýnir fram á að ríkisstjórnin hefur verið að vinna vel og ötullega að varnar- og öryggismálum okkar Íslendinga á síðustu árum. Það mun einnig koma fram í öðrum frumvörpum sem boðuð hafa verið af ríkisstjórninni.