136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

íslenskur ríkisborgararéttur.

402. mál
[12:50]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt.

Í frumvarpinu er lagt til að dómsmálaráðherra geti falið Námsmatsstofnun eða öðrum sambærilegum aðila að annast undirbúning og framkvæmd prófs fyrir þá sem óska eftir íslenskum ríkisborgararétti og jafnframt að þeir sem þreyti prófið greiði fyrir það gjald sem takmarkist við þann kostnað sem af prófi og undirbúningi þess er.

Með lögum nr. 81/2007 var lögum um íslenskan ríkisborgararétt breytt á þann hátt að sá sem sækir um íslenskan ríkisborgararétt skal hafa staðist próf í íslensku samkvæmt kröfum sem dómsmálaráðherra setur í reglugerð. Þetta skilyrði laganna tók gildi 1. janúar sl. Hefur dómsmálaráðherra sett reglugerð um prófin, nr. 1129/2008, þar sem gerð er grein fyrir m.a. efni prófa og framkvæmd þeirra. Er þar gert ráð fyrir að próf séu að jafnaði haldin a.m.k. tvisvar á ári og skal auglýst með átta vikna fyrirvara hvar og hvenær þau skulu haldin.

Við fyrrgreinda lagabreytingu árið 2007 láðist að setja í lögin heimild til að taka gjald fyrir prófin. Er því lagt til að úr því verði bætt með þessu frumvarpi jafnframt því að veita ráðherra heimild til að fela Námsmatsstofnun eða öðrum sambærilegum aðila að annast þau. Eins og áður hefur komið fram skal gjaldið takmarkast við þann kostnað sem af prófi og undirbúningi þess er.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.