139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

mengunarmál aflþynnuverksmiðjunnar Becromal við Eyjafjörð.

[16:11]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Í máli þingmanna hefur komið fram að við höfum efni á því að bíða, bíða eftir því að náttúran verði fyrir skaða og mengun. Ég er ekki sammála því. Svona á að fyrirbyggja. Svona atriði eiga ekki að geta komið fyrir þar sem eftirlitsiðnaðurinn blómstrar hér á landi sem aldrei fyrr.

Á sínum tíma, þegar Funa-málið kom fyrir umhverfisnefnd og fulltrúar Umhverfisstofnunar og umhverfisráðuneytisins komu á fund þeirrar nefndar, voru þau rök notuð að við ættum að læra af þessum mistökum. Að mínu mati á þetta ekki að geta gerst þar sem við erum með stofnun sem heitir Umhverfisstofnun þar sem vinna tæplega 80 manns. Þessu er miðstýrt úr Reykjavík og það hefur líka komið fram í máli þingmanna sem hafa talað á undan mér að auðvitað á eftirlitið að vera í heimabyggð, eftirlitið á að vera virkt.

Í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir segir í 6. gr., með leyfi forseta:

„Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun.“

Í 18. gr. sömu laga er það skilyrt að Umhverfisstofnun annist eftirlit með framkvæmd laganna hjá fyrirtækjum sem talin eru upp í fylgiskjali I. Og fylgiskjal I fjallar um það sem við í daglegu tali flokkum sem iðnaðarfyrirtæki. Heilbrigðisstofnanirnar eru svo með minni fyrirtækin sem fjallað eru um á fylgiskjali III.

Nú verður að verða einhver róttæk breyting á framkvæmd þessara laga og væri langbest að heilbrigðisstofnunum yrði falið þetta verkefni. Það er ekki hægt að mengunarslys séu að verða þar sem Umhverfisstofnun sjálf er ekki í virku eftirliti, óundirbúnu eftirliti, með þeim stöðum sem hún á að hafa eftirlit með. Að mínu mati (Forseti hringir.) er eftirlitskerfið að bregðast svona svipað eins og í bankahruninu.