139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

skuldamál lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

619. mál
[17:01]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góðar fyrirspurnir um málið og einlægan áhuga hans á að það gangi fram sem ég hef orðið var við á undanförnum mánuðum. Eins og hv. þingmaður kom að var í upphafi talað um að átakið um Beinu brautina mundi ná til 5–7 þúsund fyrirtækja. Samkvæmt þeim tölum sem Samtök fjármálafyrirtækja hafa nú tekið saman er gert ráð fyrir um að 1.700 fyrirtæki falli undir átakið.

Hv. þingmaður spurði hvort vandinn hafi verið ofmetinn. Það er örugglega svo að fjöldi fyrirtækjanna sem geta nýtt sér þessa leið hefur verið ofmetinn. Mismunurinn felst líklega í því að þegar við hófum þetta verk byggðum við tölurnar á áætlunum sem gerðar voru út frá því sem við heyrðum frá hverju og einu fjármálafyrirtæki. Um nokkra ágiskun var því að ræða. Fjármálaeftirlitið hafði á þeim tíma ekki tekið þetta vandamál út sérstaklega, hver fjöldi lítilla og meðalstórra fyrirtækja væri. Það sem síðan hefur komið í ljós er að þar sem lausn Beinu brautarinnar felst í því að meta verðmæti fyrirtækis út frá sjóðstreymi eða eignaverði þá hentar sú leið ekki sérstaklega vel mjög litlum rekstri eins og hjá einyrkjum. Þar er mjög erfitt að áætla t.d. sjóðstreymi með áreiðanlegum hætti. Þess vegna hafa fjármálafyrirtækin sett sér neðri mörk upp á 10 milljónir og vinna eftir því sem grunnreglu.

Til meðferðar hjá bönkunum eru núna 949 mál, þar af hafa 363 tilboð verið send til fyrirtækja á grundvelli Beinu brautarinnar. Sundurliðun milli einstakra fjármálastofnana er ekki mögulegt að veita vegna samkeppnissjónarmiða enda fáum við ekki aðgang að slíkum gögnum frá Samtökum fjármálafyrirtækja, þ.e. þau hafa ekki heimild til að afla slíkra gagna. Við getum séð það í gegnum Fjármálaeftirlitið en það eru viðkvæmar upplýsingar og í sjálfu sér er mikilvægt á þessu stigi að nálgast málið út frá því hver gangur málanna hefur verið hjá fjármálafyrirtækjunum sjálfum og þrýsta á þau í gegnum samtök þeirra, Samtök fjármálafyrirtækja.

Þetta mál fór allt of seint af stað. Það olli mér miklum áhyggjum þegar ég kom í efnahags- og viðskiptaráðuneytið í september að sjá hversu lítið hafði verið unnið úr þessum málum vegna þess að miklu máli skiptir, eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi, að vinna úr skuldastöðu litlu og meðalstóru fyrirtækjanna. Þau eru drifkraftur atvinnulífsins með miklu beinni hætti en stóru fyrirtækin því þau knýja fram eftirspurn og sköpun starfa hjá gríðarlegum fjölda heimila.

Við stefnum áfram að því að öll fyrirtæki sem eru tæk í Beinu brautina fái send tilboð fyrir 1. júní næstkomandi eins og samkomulagið gerir ráð fyrir en afgreiðslan getur tekið lengri tíma og það kann að taka út þetta ár að ljúka endanlega við samningaviðræður, úrvinnslu og skjalagerð.

Mikilvægt er að undirstrika að þó við tölum um 1.700 fyrirtæki sem Beina brautin á beinlínis við, er unnið eftir þessu móti eða eiginlega sniðmáti jafnt fyrir stærri fyrirtæki, einstaklingsfyrirtæki og einyrkjafyrirtækin þar sem því verður við komið. Byggt er á sömu aðferðafræði þegar menn vinna úr skuldum fyrirtækja sem eru skuldsettari en svo að þau falli undir þessa áætlun þó svo að í þeim tilvikum kunni að vera aðrar og flóknari spurningar sem þarf að spyrja, svo sem um eignarhald á fyrirtækjunum, hvort skipta eigi þeim upp eða eitthvað slíkt. Oft koma slíkar spurningar upp þegar um meðferð skulda stærri fyrirtækja er að ræða.

Aðalatriðið er að með Beinu brautinni náðum við, í sammæli milli fyrirtækjanna og bankanna, að festa niður aðferðafræði um hvernig hægt væri að leggja raunsætt mat á greiðslugetu fyrirtækjanna þannig að þau gætu verið rekstrarhæf eftir endurskipulagningu skulda og byrjað að bæta við sig fólki. Við eigum öll mikið undir því að það takist.