140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:19]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og tek undir með hv. þingmanni, sérstaklega um spurninguna er varðar fullveldisafsalið. Maður hefði talið eðlilegt, sérstaklega við núverandi kringumstæður og í ljósi aðildarviðræðna við ESB og þess sem þar er að koma upp, að spyrja þjóðina hvort hún vildi hafa ákvæði í stjórnarskrá sem heimilaði afsal fullveldis eða að það ætti að draga úr því og styrkja þannig fullveldið. Hvað þann þátt snertir held ég að skýringin hljóti að liggja í því að ríkisstjórnin óttist það að vilji þjóðarinnar standi jafnvel í þá átt að styrkja frekar fullveldið en hið gagnstæða. Það samrýmist á engan hátt utanríkisstefnu sitjandi ríkisstjórnar sem hamast við það alla daga að afsala okkur fullveldi þegar kemur að utanríkismálum og er á fullri ferð í því aðlögunarferli eins og hv. þingmaður kom inn á varðandi störf í ýmsum nefndum í þinginu.

Af hverju er síðan staldrað við þessar spurningar? Það er dálítið sérstakt því að í minni fyrri ræðu fór ég nákvæmlega yfir þær spurningar sem þarna eru lagðar fram og velti því upp af hverju verið væri að spyrja þeirra spurninga sem þarna væru. Ég velti líka fyrir mér skilgreiningum og öðru sem þeim tengdist. Úr því að þau ætla með einhvern spurningavagn af stað, af hverju er þá ekki hægt að taka allar hinar spurningarnar inn í líka og jafnvel spurninguna um Evrópusambandsaðild? Það gæti hugsanlega verið skynsamleg nálgun. Ef menn yfir höfuð vilja auka beint lýðræði gæti vel verið skoðandi að fram færu atkvæðagreiðslur einu sinni á ári um ýmis mál. En þetta getur ekki gengið þannig að menn velji sér spurningarnar og velji sér atkvæðagreiðslurnar eingöngu þegar það hentar stefnu sitjandi ríkisstjórnar. Þannig virkar ekki beint lýðræði.