141. löggjafarþing — 101. fundur,  13. mars 2013.

gjaldeyrismál.

669. mál
[14:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra hafi lagt fram þetta mál og að það sé nú komið til umfjöllunar hér í þinginu. Í því eru jákvæðir þættir sem lúta að rýmkun heimilda sem snúa að einstaklingum og fyrirtækjum.

Þetta frumvarp var að stofni til til umræðu á síðasta þingi en afgreiðslu þess var ekki lokið þá. Ákveðnir þættir í því voru umdeildir og ég minnist þess að athugasemdir voru gerðar, meðal annars af hálfu þess sem hér stendur, við ýmsa þætti sem lutu að eftirlitshlutverki Seðlabanka og eftirlitsheimildum. Ég treysti því að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fari yfir málið og meti það að nýju þrátt fyrir að mörg ákvæði í því séu kunnugleg.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort um sé að ræða veigamiklar breytingar frá stöðu málsins eins og hún var síðastliðið vor, fyrir um ári síðan, þegar málið var síðast til umfjöllunar. Ég vildi spyrja hvort efnisatriði frumvarpsins hefðu verið rædd eða ættu sér forsögu í svipuðu samráði og það frumvarp sem lagt var fram hér á laugardag og hvernig þeim málum er háttað. Fyrst og fremst vildi ég vita hvort um er að ræða breytingar frá stöðu málsins síðasta vor, en eins og við munum voru nokkur átök um frumvarpið eins og það var lagt fram þá, þó mig reki nú minni til þess að menn hafi nálgast hver annan þegar á málsmeðferðina leið.