145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:36]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir ræðuna. Ég er að mörgu leyti sammála honum og hvernig hann setur þetta upp. Það hefur líka vakið athygli mína að þessari samgönguáætlun er raðað niður eftir kjördæmum. Þetta er kannski keppni landsbyggðarþingmanna um að ná í fjármagn í sín kjördæmi. Ég mundi segja að þingmenn Suðurkjördæmis hafi kannski ekkert verið allt of duglegir á síðustu árum, alla vega ef maður horfir á þær framkvæmdir sem hafa verið í öðrum kjördæmum.

Ég er líka sammála honum í því að það mætti kannski setja þetta upp einhvern veginn öðruvísi og forgangsraða og þar fram eftir götunum. Hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir tók eiginlega frá mér spurninguna sem ég ætlaði að beina til hv. þingmanns um umferðaröryggi og fjármagn, í ljósi þess að í okkar kjördæmi, Suðurkjördæmi, sem við hv. þingmaður erum báðir í, er einhver almesta umferð sem um getur á Íslandi. Ef við skoðum bara tölur frá síðasta ári þá voru sex af þeim 16 sem létust í umferðarslysum í okkar kjördæmi og töluvert margir útlendingar. Mig langar að spyrja hann: Hvernig sér hann fyrir sér komandi ár í kjördæminu miðað við það að lögreglan er fjársvelt og umferðaröryggi er mjög ábótavant? Það hafa komið til tals allar þessar einbreiðu brýr sem eru náttúrlega fáránlega margar og nægir að nefna síðasta slys við einbreiða brú yfir Hólá. Maður upplifir það sjálfur þegar maður keyrir í kjördæminu að það er bara eins og að fara í óvissuferð að keyra austur fyrir fjall. Það er bara þannig. Ég velti fyrir mér hvernig þingmaðurinn sjái fyrir sér að við náum að auka öryggi í umferðinni á því ári sem er að líða núna miðað við það fjármagn sem við höfum.