145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er kannski frekar mættur hérna til að hlusta en að tala um þetta efni. Píratar hafa einungis þingmenn í Reykjavíkurkjördæmi norður, Reykjavíkurkjördæmi suður og Suðvesturkjördæmi. Við höfum engan þingmann á landsbyggðinni þannig að það er margt í þessum málum sem er kannski meira fyrir okkur til að hlusta á en að predika um. Ég verð þó að segja, alla vega fyrir sjálfan mig, að ég er almennt mjög hlynntur úrbótum sem þykja umdeildar, nefnilega jarðgöngum. Ég man vel hvað breytti þeirri skoðun minni því að ég var áður fyrr meira á þeirri línu að þetta væri kannski óhóflega kostnaðarsamt miðað við ávinninginn, miðað við fólksfjölda og svoleiðis, en síðan sér maður til dæmis Siglufjörð og hvernig hann verður fyrir gríðarlega jákvæðum áhrifum og svæðið þarna í kring af jarðgöngum sem voru auðvitað umdeild eins og öll jarðgöng á sínum tíma. Ég er mikill stuðningsmaður jarðganga og áhugasamur um að koma þeim við þar sem það reynist skynsamlegt. Ég vil meina að það sé oft skynsamlegt, mjög gott fyrir byggðarlögin sem eru nálægt þeim.

Ég kem hingað helst til að kynna efni sem er ekki að finna í tillögunni sjálfri en það eru nokkur orð um rafbílavæðingu. Píratar samþykktu nýlega með yfirgnæfandi meiri hluta stefnu um rafbílavæðingu og mig langar til að kynna hana í stuttu máli til að fara yfir það sem við gætum þurft að velta meira fyrir okkur í framtíðinni og legg það fram til umhugsunar fyrir jafnt þingmenn og leikmenn. Ég ætla að byrja á því að lesa stefnuna í heild sinni, með leyfi forseta:

„1. Stefna skuli að rafbílavæðingu Íslands.

2. Beita skuli fjárhagslegum ívilnunum til að auka hlutfall rafbíla.

3. Sem hluta af almennri orkumála- og umhverfisstefnu skuli ríkið huga að innviðum, setja markmið um rafbílavæðingu og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að ná þeim markmiðum.“

Nú er ákveðin klemma í sambandi við rafbílavæðingu sem hefur verið nefnd áður. Hún er sú að það þarf að hafa innviðina til að fólk sjái sér hag í því að versla sér rafbíla en hins vegar þurfa rafbílarnir að vera til staðar til að það sé markaður fyrir innviðina. Þarna er ákveðin klemma sem ég tel þess eðlis að það þurfi að stíga inn í út frá einhverju öðru en einföldum markaðslögmálum fyrir utan það að ég tel í grundvallaratriðum að orkuskipti, sem ég met að séu óhjákvæmileg, einungis spurning um hvenær og hversu hröð þau verði, krefjist aðkomu yfirvalda og opinbers fjármagns vegna þess að ég held ekki að markaðurinn virki þannig að hann geti leyst svoleiðis vandamál á eigin spýtur. Af því leiðir að ég styð mjög þessa stefnu um rafbílavæðingu og álít hana óhjákvæmilega þróun sem við verðum þó að byrja að stuðla að sem fyrst.

Nú les ég upp úr stefnunni og hef hana sem leiðsögn í þessu. Hér er listi yfir ívilnanir sem gilda á Íslandi fyrir rafbíla bæði hjá ríki og Reykjavíkurborg. Það eru engir tollar og engin vörugjöld á rafbílum. Þetta er varanlegt í þeim skilningi að það þarf að breyta lögum til að það breytist. Enginn virðisaukaskattur er af fyrstu 6 millj. kr. af hverjum rafbíl sem fluttur er til landsins. Hann má samt ekki vera eldri en þriggja ára. Þessi niðurfelling á virðisaukaskatti gildir bara eitt ár í senn, þ.e. til áramóta. Á hverju ári þarf að leggja fram frumvarp til að framlengja þetta ákvæði um eitt ár. Það skapar að sjálfsögðu óvissu. Frítt er að leggja í stæði í Reykjavík í einn og hálfan tíma í senn en gildir ekki ef rafbíllinn er á nagladekkjum. Síðan eru lægri bifreiðagjöld.

Til samanburðar er hér yfirlit yfir ívilnanir í Noregi fyrir rafbíla. Þar eru engir tollar og engin vörugjöld á rafbílum, enginn virðisaukaskattur á rafbílum. Frítt er að leggja í stæði, frítt í gegnum göng og í ferjur. Heimilt er að aka á forgangsakreinum fyrir strætisvagna og leigubíla. Bifreiðagjöld eru lægri, það er afsláttur af tekjuskatti einstaklinga ef einstaklingurinn hefur aðgang að fyrirtækjabíl og enginn virðisaukaskattur á rafbílum sem eru teknir á leigu hjá fjármögnunarfyrirtækjum.

Þetta hef ég bara upp úr þessari stefnu, ég verð að viðurkenna að ég fór ekki í rannsóknarvinnu til að fá allt þetta staðfest fyrir sjálfan mig en þetta er alla vega í stefnunni og mér þykir hún verðugt innlegg í umræðuna.

Í grunnáætlun kemur fram að móta stefnu um rafbílavæðingu Íslands og kynna hana rækilega, setja á fót vinnuhóp sem fylgir stefnunni eftir og kynna áætlun um uppsetningu hleðslukerfis fyrir rafbíla um allt land.

Í greinargerð stefnunnar kemur fram, með leyfi forseta:

„Ein helsta hindrunin fyrir því að almenningur kaupi sér rafbíl, er skortur á hleðslustöðvum. Engin áætlun er fyrir hendi hvað varðar uppsetningu hleðslustöðva hvorki frá stjórnvöldum og ekki heldur frá fyrirtækjum sem gætu séð sér hag í að setja upp hleðslustöðvar.

Fyrirtæki og frumkvöðlar eru ekki að fara að leggja í mikinn stofnkostnað þegar stefna stjórnvalda er ómarkviss og ívilnanir einungis til eins árs í senn.

Meðan engin stefna er til staðar, þá er ekki líklegt að neinn sjái sér hag í því að setja upp kerfi hleðslustöðva á landinu, sem aftur hefur það í för með sér að fólk er hikandi við að kaupa sér rafbíl.“

Eins og ég sagði áður tel ég einsýnt að þessi þróun muni ekki eiga sér stað sjálfkrafa fyrr en það er í rauninni orðið of seint. Það eina sem gæti hugsanlega valdið því væri að mínu mati ægileg verðhækkun á bensíni. Hún hefði auðvitað sínar afleiðingar og við þurfum að vera búin að bregðast við fyrir þann tíma að mínu mati. Við höfum nýlega upplifað að það var ægilega hátt olíuverð og það hafði ýmsar vondar afleiðingar alls staðar um heim, ekki bara vegna þess að bensín er dýrt heldur er olía auðvitað þess eðlis að hún er takmörkuð auðlind og sífellt þarf að finna meira. Þegar hana fer að þrjóta erum við í vondum málum. Sömuleiðis erum við í vondum málum ef við notum of mikið af henni vegna þess að brennsla olíu hefur áhrif á heimshlýnun sem er stórt vandamál sem markaðurinn mun ekki heldur leysa á eigin spýtur. Það eru alveg hreinar línur.

Það er líka alveg hárrétt sem hæstv. innanríkisráðherra sagði áðan um rafbíla, að rafbílavæðing krefst aðkomu margra, svo sem sveitarfélaga og annarra ráðuneyta. Hún krefst reyndar að mínu mati líka þátttöku almennings og eldmóðs af hálfu almennings við það að taka þetta upp. Það er ekki nóg að ríkið leggi einfaldlega fram svona stefnu. Það þarf að vera þátttaka meðal almennings, það þarf að vera metnaður fyrir því meðal almennings að taka þátt í verkefni um orkuskipti.

Vel á minnst, orkuskipti, virðulegi forseti. Í umræðu um rammaáætlun og hvað skuli virkja og hvað ekki man ég mjög vel að ég var eiginlega þeirrar skoðunar sjálfur að það væri munur á því hvort maður mundi styðja virkjun eins og fallvatnsvirkjun eftir því í hvað orkan væri notuð. Ef við nýttum orkuna markvisst og meðvitað með stórfelldum hætti til orkuskipta held ég að það mundi hjálpa til við verkefnið sem er rafbílavæðingin sjálf en sömuleiðis hjálpa umræðunni um virkjanir sem oft og tíðum er mjög hatrömm og ég tel stundum að óþörfu.

Að því sögðu þar sem ég er í meginatriðum búinn að kynna þessa stefnu mæli ég eindregið með því að fólk kynni sér hana sjálft á x.piratar.is, þar er að finna stefnu um rafbílavæðingu, og það taki þátt í umræðunni um að gera þennan kost að raunhæfum möguleika.

Þá langar mig sérstaklega að nefna sérlega áhugaverða ræðu sem var flutt af hv. 8. þm. Suðurk., Haraldi Einarssyni, sem fjallaði um öryggi og benti á það sem við hugsum kannski ekki nógu oft um sem er að við höfum ákveðið sem samfélag að dauðsföll í flugi séu óásættanleg. Við ætlum bara ekki að leyfa því að gerast. Við tökum sama pól í hæðina þegar kemur að sjómennsku. Hins vegar viðgengst í umferðinni einhvern veginn sú skoðun í samfélaginu að dauðsföll séu hluti af lífinu. Mér þykir áhugaverð og augljóslega eftirsóknarverð sú sýn að við værum jafn hissa á því að það yrði dauðsfall í umferðinni og ef það yrði dauðsfall í flugi og gerðum sömu kröfur til þess að fólk væri öruggt í umferðinni eins og við gerum í flugi. Það er áhugaverð sýn sem mér finnst alveg þess virði að velta fyrir mér. Ég hvet fólk eindregið til þess að hlýða á stórgóða ræðu hv. þingmanns.

Sömuleiðis fjallaði hv. þingmaður um sjálfkeyrandi bíla og gerði það með slíkum brag að ég tel mig ekki geta gert betur og ætla því ekki að fjalla um það að þessu sinni, en geri ráð fyrir því að hv. þingmaður fari kannski eilítið meira inn á það stórgóða umræðuefni þar sem ég sé að hann er á mælendaskrá.