149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

staða innflytjenda í menntakerfinu.

[14:17]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir, sem og hæstv. menntamálaráðherra fyrir að gefa sér tíma til að ræða þetta mikilvæga mál. Ég tek undir vangaveltur málshefjanda að innan kennaranámsins væri kennsla í íslensku sem annars tungumáls skyldufag. Með einhverjum hætti verður að styðja við fagið og sérstaklega núna þegar við þurfum með öllum ráðum að standa vörð um íslenskuna.

Einnig má velta fyrir sér hvort þurfi staðlað og markvisst námsefni til notkunar í skólum. Vil ég spyrja hvort ekki sé örugglega haft í huga að innleiða gæðaviðmið, að þau verði fyrir hendi. Það er afar mikilvægt að nemendur hafi tækifæri til þess að læra íslensku. Við sjáum það í auknum mæli, vil ég leyfa mér að segja, að nemendur tala ensku sín á milli, líka þeir sem hafa íslensku sem móðurmál. Það finnst mér vera varhugaverð þróun.

Nú er hægt að ljúka kennaranámi með áherslu á hin ýmsu svið og er tími til kominn að bæta inn áherslu sem snýr að kennslu nemenda með annað móðurmál.

Mikið er talað um að fjárfesta í menntun kennara. Það á sérstaklega við kennara sem taka að sér kennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku, þ.e. kenna íslensku sem annað tungumál. Háskólar verða því að sinna þeim þætti betur og það er gott að heyra að til standi að bæta þar úr.