149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

um fundarstjórn.

[15:10]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég tek ekki oft til máls undir liðnum um fundarstjórn forseta en ég tel mig knúinn til að gera það. Vonir mínar um að velferðarnefnd færi aðeins betur yfir málið og reyndi kannski að ná einhverri víðtækari sátt um þetta viðkvæma mál sem við erum að fara að fjalla um hér í dag urðu því miður að engu.

Nú liggja fyrir hins vegar a.m.k. tvær breytingartillögur við 3. umr. sem eru í mínum huga báðar skref í rétta átt. Auk þess eru einhverjar tæknilegar breytingartillögur frá formanni velferðarnefndar sem ég á eftir að fara í gegnum. Í ljósi þessa finnst mér rétt og ég fer vinsamlegast fram á það við hæstv. forseta að hann íhugi það að fresta umræðu um þetta mál í dag. Ég er að fara fram á það að umræðunni verði frestað um sinn. Himinn og jörð munu ekki farast þó að nokkrir dagar líði þangað til að við göngum endanlega frá málinu. Það gefur þó a.m.k. einhverjum þeim þingmönnum tíma sem kunna að þurfa að hugsa sig um hvort þeir hyggist styðja þær breytingartillögur eða aðra hvora þeirra breytingartillagna sem hér liggja fyrir.