149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

um fundarstjórn.

[15:12]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég heyrði það í ræðu hv. þingmanns við 2. umr. að beðið var um að skoða vikufjöldann og að sú umræða yrði tekin í velferðarnefnd milli 2. og 3. umr. Mér finnst mikilvægt að upplýsa hv. þingmann um að haldnir hafa verið níu fundir í velferðarnefnd um þungunarrof. 22 komu á fund nefndarinnar fyrir hönd 13 aðila. Eitt mest umrædda málið í nefndinni á þessum níu fundum var vikufjöldinn. Hann var ræddur fram og til baka. Það er ekkert eftir að ræða. Þetta var niðurstaða meiri hluta nefndarinnar. Þeir sem voru ósammála þessari niðurstöðu komu með sín sérálit, eins og rétt er, og tjáðu sína skoðun og sínar niðurstöður við 2. umr.

Þetta er bara niðurstaðan. Þó að hv. þingmaður sé ósáttur við þessa niðurstöðu þýðir það ekki að við þurfum að draga á langinn umræðu og atkvæðagreiðslu um þetta mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)