149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[23:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, bölvuð lýðheilsan. Hún segir okkur m.a. það að þær þjóðir sem neyta núna 11 lítra á mann að meðaltali af hreinum vínanda á ári, samanber Breta, Dani, Þjóðverja, lifa að jafnaði tveim árum skemur en meðal-Íslendingurinn. Ég veit svo sem ekkert hvort það er gott eða slæmt. Ég þekkti ágætan lækni sem er látinn núna og hann reykti. Menn sögðu: Þú ert læknir og þú reykir? Og hann sagði: Ef ég hætti að reykja lifi ég viku lengur og það mun rigna allan tímann.

En þetta er ekki alveg svona einfalt. Og jú, auðvitað getum við valið okkur lífsstíl sem er misheilbrigður, eins og við segjum, eins og hv. þingmaður kom inn á. Ef hann er mjög óheilbrigður mun einhver að lokum hirða reikninginn, þ.e. ef við, ég og hv. þingmaður, lifum lífi okkar svo óheilsusamlega, alveg sama hvort við röðum í okkur súkkulaðiköku eða drekkum áfengi eða reykjum gras eða hvað við gerum, og verðum fyrir skaða af því, mun alla vega íslenska þjóðfélagið taka okkur að sér á einhverjum tímapunkti og með tilheyrandi kostnaði fyrir einhverja aðra sem gera ekki það sama.

Að því sögðu vil ég segja að ég er í sjálfu sér algerlega sammála hv. þingmanni um það að áfengi er ekki minna dóp en eitthvert annað dóp, síður en svo. Það hafa verið færð rök fyrir því að áfengi sé hættulegra en heróín og ég er alveg til í að kaupa þau rök. Það breytir ekki því að við vitum að ef við aukum aðgengi akkúrat að þessu vímuefni fáum við bylgju af alls konar vandræðum yfir okkur, heilsufarslegum o.s.frv. o.s.frv.

Það er líka annað sem er rétt að taka fram í þessu máli. Of mikil áfengisneysla er ekki einkamál fyllibyttunnar. Hún leggst á fjölskylduna og varpar skugga yfir allt umhverfi viðkomandi. Þannig að það er til þó nokkurs vinnandi að draga úr þessum áhrifum með því að stýra neyslunni eins og (Forseti hringir.) gert er á Norðurlöndunum og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sagt að sé öfundarefni fyrir alla Evrópu.