151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa góðu spurningu sem sneri að þessari fjármálaáætlun. Ég vil taka það fram að allt þetta kjörtímabil hefur fjárlaganefnd alltaf horft til þessara hópa og reynt að styðja við þar sem hægt er. Hér hefur verið horft til tekjulægstu hópanna og búið er að hækka lægstu tekjutíundina og til stendur að bæta tveimur næstu við. Af því að hv. þingmaður minnist á fjármálaáætlunina þá verðum við að horfa á heildarframlögin; þau eru að hækka hér frá 2017–2026 um 45% og 36% eftir þessum tveimur sviðum sem aðallega falla hér undir. Við þurfum að tryggja að þessi auknu framlög og allir þessir miklu fjármunir renni til þeirra sem eiga að fá þá svo að við tryggjum það að lægstu hóparnir geti dregið fram lífið á þessum fjárhæðum sem við erum að beina til þeirra. Það er verkefnið. Þetta eru miklar fjárhæðir.