151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Þetta er síðasta fjármálaáætlun þessa kjörtímabils, þar sem stjórnvöld leggja fram sína stefnu til næstu fimm ára. En til þess að finna stefnu stjórnvalda í þessu plaggi þarf bæði stækkunargler og tímavél. Stækkunargler af því að eina stefnan sem finnst í þessari fjármálaáætlun, svona aukalega miðað við áður, er milljarður króna aukalega í loftslagsmál næstu tíu árin, til að brúa bilið á milli fyrri stefnu um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda yfir í 55% samdrátt.

Svo er vísun í stefnu síðustu fjármálaáætlunar þar sem það reyndist ríkisstjórninni of erfitt að koma sér saman um stefnu út úr kófinu. Núverandi stefna stjórnvalda, sem er undirliggjandi í þessari fjármálaáætlun, rennur út í lok árs 2023, sem þýðir í rauninni að fjármálaáætlun 2019–2023 var í raun síðasta stefna stjórnvalda, þar sem lögð var einhver áhersla á fjárheimildir til fimm ára gildistíma áætlunarinnar. Þær fjárheimildir eru einfaldlega að renna út og það kemur ekkert nýtt í staðinn. Það kom ekkert nýtt síðast, það var engin stefna um hvernig ætti að komast út úr kófinu, eftir það, af því að kosningar nálgast og það er frekar augljóst að ríkisstjórnarflokkarnir eru dálítið ósammála um til hvaða aðgerða eigi að grípa, þau eru einfaldlega að bíða eftir kosningum. Og það er enn þá augljósara í þessari fjármálaáætlun þar sem þau sleppa því að uppfæra stefnukaflann þrátt fyrir augljóst tilefni miðað við ástandið á faraldrinum og þær aðgerðir sem grípa þarf til eftir á.

Efnahagskaflinn í þessari fjármálaáætlun er fínn og lýsir þessu vandamáli sem þarf að takast á við á næstunni, en stefnuna um það hvernig á að gera það er ekki að finna hér.

Í því ástandi sem við erum í núna sjáum við glitta í endalok samkomutakmarkana og opnara aðgengi fyrir ferðamenn. Þá þarf stefnu til framtíðar, en stjórnvöld skiluðu hins vegar auðu. Frá því að stjórnvöld lögðu fram sína síðustu áætlun hefur verið spáð auknu atvinnuleysi, en á sama tíma er sagt að helsta áskorun næstu ára sé „að koma í veg fyrir að þessar spár um atvinnuleysi verði að veruleika“. Með öðrum orðum voru spár um atvinnuleysi slæmar þegar ríkisstjórnin setti fram stefnu sína í síðustu fjármálaáætlun og nú eru þær orðnar verri þrátt fyrir stefnu stjórnvalda. Það er greinilegt að stefna stjórnvalda frá því síðast virkar ekki og því er vægast sagt áhugavert að sjá engar breytingar í nýrri stefnu stjórnvalda.

Hins vegar eru nokkrar aðgerðir sem búið er að grípa til núna undanfarið, Hefjum störf o.s.frv., sem er bara mjög góð hugmynd. Búið var að kalla eftir því í þó nokkurn tíma. Helstu vankantarnir þar eru að þær aðgerðir duga í rauninni bara fram að kosningum, reiknað er með fjárheimildum fram að kosningum en þá er það bara búið. Það er mjög lýsandi fyrir bæði ríkisstjórnarsamstarfið, í alvörunni, svona á bak við tjöldin, og það sem við sjáum núna í þessari fjármálaáætlun. Það er augljóst að ekki er hægt að setja fram stefnu fyrir kosningar af því að flokkarnir ætla að ganga óbundnir til kosninga og reyna að standa við loforð sín og kaupa sér aukið vægi innan líklega sömu ríkisstjórnar, af því að það hefur komið þó nokkuð oft fram að það sé ekkert svo rosalega glatað að vinna í þessari ríkisstjórn.

En það sem við sjáum hins vegar, eins og í þessari fjármálaáætlun, er stefnuleysi. Í gegnum þennan faraldur hefur verið við þetta stefnuleysi að glíma. Sagt var í upphafi þessa faraldurs að það ætti að bregðast við jafnóðum. Þrátt fyrir það höfum við séð atvinnuleysi fara sívaxandi alveg þangað til um síðustu áramót. Þá fór aðeins að rofa til og er búið að síga smávegis niður síðan þá en ekkert gríðarlega. Og jú, af því að þessar aðgerðir, sem loksins var farið í eftir áramót þegar farið var að stemma stigu við atvinnuleysi — þar er ekki að sjá að verið sé að bregðast við jafnóðum. Það var einfaldlega brugðist við allt of seint af því að það var engin stefna um hvað ætti að gera. Og enn og aftur, stefna stjórnvalda á að vera í fjármálaáætlun, en hana er ekki að finna hér.

Staðan er erfið. Því er ekki hægt að neita. Það sem er enn erfiðara er að sjá öll glötuðu tækifærin. Á meðan atvinnuleysi stefndi í 10% síðasta haust náði Tækniþróunarsjóður einungis að fjármagna 8% umsókna. Tækifærin í nýsköpun til þess að koma til móts við aukið atvinnuleysi var því til staðar, ekki bara hjá Tækniþróunarsjóði heldur á svo mörgum stöðum úti um allt land. Hvað gerði ríkisstjórnin í því? Lagði niður Nýsköpunarmiðstöð án þess að hafa áætlun um hvað tæki við í staðinn. Hvað gerðu Píratar og stjórnarandstaðan? Lögðu til að 9 milljarðar kr. yrðu settir í nýsköpunarmál strax í upphafi faraldursins. Ríkisstjórnin lagði til 1,5 milljarða kr. sem breyttust í 3 milljarða kr. áður en málið var samþykkt. Þetta var staðan í upphafi faraldursins, sýnin sem birtist okkur og tillögurnar sem þá voru lagðar á borðið til þess að bregðast við aðstæðum. Ríkisstjórnin byrjaði í 1,5 milljörðum og hækkaði sig upp í 3. Píratar og stjórnarandstaðan lögðu til 9 milljarða. Niðurstaðan var fjármögnun 8% umsókna hjá Tækniþróunarsjóði sem hefði verið um það bil fullfjármagnaður miðað við tillögu Pírata og stjórnarandstöðu.

Tækifærin voru til staðar, þau voru ekki notuð. Afleiðingin er aukið atvinnuleysi. Augljóst mál.

Stefna stjórnvalda í loftslagsmálum er áhugaverð því að það er í rauninni eina viðbótin við stefnumörkun stjórnvalda frá því síðast. Örfáum dögum eftir að síðasta stefna ríkisstjórnarinnar var samþykkt var tilkynnt um stefnubreytingu, sem var náttúrlega alveg galið að fá svona stuttu eftir að þingið afgreiddi stefnu stjórnvalda. Nýja stefnan er 55% samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 í stað 40% samdráttar. Í ljós kom að stefnan var í rauninni komin frá samstarfsaðilum okkar í loftslagsmálum í Evrópu, en þar var sett ný stefna um 55% samdrátt og ríkisstjórn Íslands fylgdi með. Stefnan um kolefnishlutleysi árið 2040 er óbreytt og er ansi nauðsynleg. Til þess að ná þessum markmiðum um 55% samdrátt leggur ríkisstjórnin til 1 milljarð árlega næstu tíu árin. Engin tilraun er hins vegar gerð til að útskýra hvort það þurfi heilan milljarð árlega til að ná þeim árangri frekar en fyrri daginn.

Fjármálaráð útskýrir mikilvægi gegnsæis í umsögn sinni við fjármálaáætlun á mjög skýran hátt, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að auka gagnsæi hvað varðar væntan ávinning innviðafjárfestinga í samfélaginu og út frá því forgangsröðun verkefna, einkum við þær erfiðu kringumstæður þar sem fjármunir eru takmarkaðir og viðkvæmt jafnvægi ríkir milli efnahagslegs stöðugleika og sjálfbærni opinberra fjármála.“

Það er ekki bara mikilvægt, heldur er það krafa samkvæmt lögum um opinber fjármál að stefna stjórnvalda sé kostnaðarmetin, ábatagreind og forgangsröðuð til að við sjáum ávinning af stefnu stjórnvalda umfram aðra kosti. Búið er að tönnlast á þessu allt kjörtímabilið og enn er ekki farið að fara eftir þessu.

Umhverfismál eru eitt af þeim málefnasviðum sem ríkisstjórnin hefur helst lagt áherslu á í orði. Á borði lítur það líka þannig út, en í töflu í áliti meiri hluta fjárlaganefndar kemur fram 57% aukning á fjárheimildum á málefnasvið umhverfismála á áætlunartímabili þessarar ríkisstjórnar, frá 2017 þegar hún tók við, til 2026, þegar tímabili þessarar síðustu fjármálaáætlunar lýkur. Það er hækkun frá 16,6 milljörðum kr. upp í 25,8 milljarða kr., eða um 9 milljarða kr. aukning á fjárheimildum. Til þess að átta sig á samhengi mála þarf hins vegar að skoða fylgirit fjárlaga en þar sést að hækkunin er aðallega í málaflokkunum meðhöndlun úrgangs, ofanflóðasjóður og að lokum stjórnsýsla umhverfismála.

Nokkuð ítarlega er fjallað um útgjöld til loftslagsmála í rammagrein 11 í fjármálaáætluninni. Þar er dregin fram upphæðin rúmlega 13 milljarðar kr. til loftslagsmála árið 2022. Þar sést hvernig fjárframlög til loftslagsmála eru mest á árunum 2020–2023 en lækka svo aftur frá 2024 vegna þess að þá falla núverandi skattalegar ívilnanir vegna vistvænna ökutækja niður. Eins og ég sagði áður rennur stefna stjórnvalda út 2023. Sama á við um nýsköpunarstyrkina o.s.frv. Það rennur allt út þá.

Staðan í dag, samkvæmt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, er að aðgerðir sem metnar hafa verið munu skila 35% samdrætti í losun til ársins 2030. Það er umfangið sem við erum að glíma við hérna, eða sem hefur verið metið. Aðgerðir sem eru í mótun eiga að skila aukalega 5–11% samdrætti. Sú áætlun á að skila okkur úr tæplega 3,2 milljóna tonna losun niður í rétt rúmar 1,9 milljónir, miðað við 40% losun, þá miðað við fyrri stefnu. Ný stefna gerir, eins og áður sagði, ráð fyrir 55% samdrætti í losun, niður í rétt rúmar 1,4 milljónir tonna. Það vantar því aðgerðir í loftslagsáætlunina upp á um hálfa milljón tonna.

Hérna ætti einföld talnaleikfimi að sýna okkur, miðað við að þetta sé rétt, þ.e. fjármagnið sem er þarna og umfang aðgerða samkvæmt loftslagsáætlun, að hér er eitthvað undarlegt í gangi. Ef fjárheimildir til loftslagsmála voru áætlaðar um 12 milljarðar kr. árið 2022 til þess að ná 40% samdrætti í losun og 1 aukamilljarður á að skila okkur í 55% samdrátt, þá verður að spyrja af hverju ekki var byrjað á þeim augljóslega ódýru og skilvirku verkefnum, því að þarna kostar 15% samdráttur bara 1 milljarð á meðan 40% samdráttur kostar 12, ef þið skiljið hvað ég á við, svona í einföldum hugarreikningi. Á tímabili þessarar fjármálaáætlunar kaupum við 40% samdrátt í losun fyrir að meðaltali tæpa 10 milljarða á ári, eða um 1 milljarð fyrir hver 4% í samdrætti. Svo fáum við 15% samdrátt fyrir 1 milljarð aukalega á ári að meðaltali. Það þýðir að annaðhvort forgangsraðaði ríkisstjórnin dýrari aðgerðum sem skiluðu minni árangri fyrst, eða þá að áætlaður kostnaður er bara verulega slæm ágiskun. Gefum okkur að 10 milljarðarnir séu eins nákvæmir og hægt er að búast við. Miðað við að forgangsröðun verkefna setji ódýrustu og skilvirkustu verkefnin fyrst mætti kannski gera ráð fyrir að viðbótarverkefni séu aðeins dýrari eða skili ekki eins góðum árangri.

Þannig á þetta að virka samkvæmt lögum um opinber fjármál. Þannig að ef við erum bjartsýn og segjum að það kosti 1 milljarð að fá 3% samdrátt í staðinn fyrir 4% samdrátt þá horfum við upp á að það þarf 5 milljarða aukalega til að ná 55% samdráttarmarkmiðinu, ekki bara 1. Þess vegna legg ég til breytingartillögu til þess að dekka þessa 4 milljarða sem upp á vantar til að ná 55% samdrætti samkvæmt stefnu stjórnvalda. Ég efast ekki um að stjórnvöld taki því fegins hendi að fá betri útreikninga á þessu en gerð er grein fyrir í fjármálaáætluninni. Og þá reikna ég af bjartsýni með þessum 3% fyrir milljarð í staðinn fyrir 4% fyrir milljarð, sem er meðaltalið fyrir tímabil áætlunarinnar. Það verður áhugavert að sjá hvernig það fer.

En aðeins að stefnu stjórnvalda frá því síðast. Helstu áherslur stefnu stjórnvalda í síðustu fjármálaáætlun voru þrjár:

1. Viðspyrna í opinberum fjármálum.

2. Verðmæt störf, fjárfestingar og aukin hagsæld.

3. Skilvirkari þjónusta og sjálfbær, opinber fjármál.

Meiri hluti fjárlaganefndar bætti við áherslum í nefndaráliti sínu þar sem hann talaði um fimm atriði:

1. Svigrúm í krafti árangurs í ríkisfjármálum.

2. Áhersla á nýsköpun og innviðauppbyggingu.

3. Byrðum létt af fólki og fyrirtækjum.

4. Arðsemi og atvinnusköpun í fyrirrúmi við fjárfestingar.

5. Skuldasöfnun stöðvuð á áætlunartímanum.

Stefna stjórnvalda hefur ekki gengið betur en svo að horfur um atvinnuleysi hafa versnað frá því núverandi stefna var samþykkt, sama stefna og fjallað er um í þessari tillögu að fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Stefnan hefur í raun verið mjög skýr frá því að kófið hófst, markmið stjórnvalda var að bíða af sér faraldurinn og halda áfram þar sem frá var horfið í hvalrekahagkerfinu með nýjasta hvalrekann, ferðaþjónustuna. Það hefur komið hér fram ítrekað að við verðum að vaxa út úr þessum vanda með ferðaþjónustunni. Enn og aftur eru öll eggin sett í sömu körfuna. Einu sinni var það síldin og sjávarútvegur. Svo voru það álver og ódýr orka fyrir þau. Þar á eftir var það bankabólan og núna eru það ferðamenn sem eiga að redda öllu.

Það að stefnan er bara að bíða þangað til kófið klárast og halda svo áfram þar sem frá var horfið setur fyrsta markmið stjórnvalda um viðspyrnu í opinberum fjármálum í ákveðið ljós. Á island.is er yfirlit yfir allar Covid-aðgerðirnar. Þar eru lokunarstyrkir, viðspyrnustyrkir, stuðningslán, styrkir til íþrótta- og tómstundastarfs, Hefjum störf, tekjufallsstyrkir, frestun skattgreiðslna, ferðagjöf, tekjutengdar atvinnuleysisbætur, laun í sóttkví, styrkir vegna umönnunar fatlaðra og langveikra barna, ráðningarstyrkir, laun á uppsagnarfresti, Allir vinna, hlutabótaleiðin, brúarlán, greiðsluskjól og úttekt séreignarsparnaðar. Rosalega mörg atriði, hljómar mjög jákvætt. Svo vantar að vísu í þessa upptalningu sérstakt tímabundið fjárfestingarátak, sem má alveg taka til líka, og nokkrar aðrar aðgerðir sem eru svo sem almennari og ekkert endilega bundnar við sérstakar Covid-aðgerðir en hjálpa að sjálfsögðu til. Af þessum aðgerðum er það í rauninni bara sérstaka fjárfestingarátakið sem er fjárfesting til framtíðar.

Önnur úrræði snúast um að vernda það sem fyrir var og er svo sem góðra gjalda vert. Vandamálið er hins vegar tvöfalt; annars vegar býst enginn við því að allt verði strax eins og það var fyrir kófið og hins vegar var efnahagurinn að dala þegar faraldurinn skall á. Þeirri stóru spurningu er því ósvarað hvernig stefna stjórnvalda, um að allt eigi bara að vera eins og það var fyrir kófið, býður upp á einhverja viðspyrnu úr þeirri skuldaholu sem við höfum þurft að grafa til þess að halda öllu á floti.

Annað markmið stjórnvalda um verðmæt störf er einnig frekar innantómt þegar betur er að gáð. Tímabundnar viðbætur í nýsköpun, sem eru aðallega endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar, fara í raun til mjög fárra, stórra aðila þar sem ekki eru margir sem fullnýta endurgreiðsluheimild. Tillaga Pírata var að smærri aðilar gætu fengið hærra hlutfall endurgreitt því að kostnaður lítilla fyrirtækja við að sækja fé í sjóði er mun hærri sem hlutfall af heildarveltu en hjá stærri fyrirtækjum. Við viljum huga betur að rótunum og jarðveginum.

Stafræn stjórnsýsla, sem fjármálaráðherra hefur kallað Ísland 2.0, er löngu tímabær en á sama tíma löngu orðin úrelt. Ísland hefði átt að fara í gegnum 2.0 byltinguna í kringum síðustu aldamót. Ég vísa í umfjöllun mína um fjárlög fyrir árið 2021 fyrir nákvæmari yfirferð yfir nauðsynlegar framfarir í stafrænni stjórnsýslu.

Sjálfbær, opinber fjármál. Það er sjálfgefið að hafa stefnu um sjálfbær opinber fjármál. Auðvitað vill enginn ósjálfbær, opinber fjármál. Hvað þýðir það samt? Í stærra samhengi opinberra fjármála þýðir það í raun lítið atvinnuleysi, litla verðbólgu, að allir séu með þak yfir höfuðið og eigi rúmlega fyrir nauðsynjum í samfélagi sem gangi ekki á sameiginlegar auðlindir. Það er í rauninni ekki flóknara þegar allt kemur til alls. Það er markmið okkar að passa að samfélag okkar sé nákvæmlega svona: Lítið atvinnuleysi, lág verðbólga, þak yfir höfuðið, að eiga rúmlega fyrir nauðsynjum og að við séum ekki að ganga á sameiginlega auðlind, að við séum ekki að ganga á auðlindir jarðarinnar fyrir komandi kynslóðir.

Það er hlutverk opinberra fjármála að jafna efnahaginn og til þess er hægt að beita fjölmörgum aðferðum eins og hinum klassísku sjálfvirku sveiflujöfnurum, t.d. atvinnuleysisbótum, atvinnutryggingu og grunnframfærslu. Til viðbótar getur hið opinbera gripið til sértækra aðgerða sem ná til afmarkaðra vandamála. Í álitsgerð fjármálaráðs er einmitt bent á að undirliggjandi afkoma opinberra fjármála var orðin ósjálfbær á toppi hagsveiflunnar árið 2019. Það þýðir að við getum ekki búist við neinni viðspyrnu til að viðhalda núverandi stefnu um að allt eigi bara að vera eins og það var fyrir faraldurinn. Óhjákvæmilega þarf að breyta einhverju, en eins og ég segi, það er allt að renna út. Stefnan rennur út 2023 og það er algjörlega ófyrirséð hvað á að gerast eftir það, enda vilja stjórnvöld ekki framlengja stefnu sína. Eina útskýringin sem ég hef á því er að þau eru ekki sammála um hver stefnan eigi að vera. Það er engin önnur skýring á því í rauninni. Það er kannski satt að það sé mikil óvissa, en það er tilgangur stjórnvalda að eyða óvissu með því að setja stefnu. Óhjákvæmilega þarf að breyta einhverju, en núverandi stjórnvöld setja ósjálfbæra stefnu og útskýra ekki hvernig þau ætla að taka til eftir sig. Það er einfaldlega þannig.

Í upphafi kjörtímabils voru ýmsar áskoranir sem þurfti að takast á við. Augljósu málin þar voru húsnæðismál, innviðauppbygging, álag vegna ferðamanna og vandi í heilbrigðiskerfinu. Að auki voru þónokkur pólitísk vandamál, eins og breytingar í auðlindamálum, að framfylgja niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu vegna nýrrar stjórnarskrár og ýmis spillingarmál sem höfðu sprengt fyrri ríkisstjórnir. Þegar litið er yfir kjörtímabilið er svo sem hægt að sjá að ýmis stórmál voru samþykkt, yfirleitt í þverpólitískri sátt en stundum þrátt fyrir ríkisstjórnarsamstarf þar sem stjórnarandstaðan bætti við nokkrum atkvæðum sem þurfti til að ná málinu í gegnum þingið.

Í upphafi kjörtímabilsins voru ýmsar áskoranir sem þurfti að takast á við. Augljósu málin þar voru húsnæðismál, innviðauppbygging, álag vegna ferðamanna og vandi í heilbrigðiskerfinu. Að auki voru þónokkur pólitísk vandamál, eins og breytingar í auðlindamálum, að framfylgja niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu vegna nýrrar stjórnarskrár og ýmis spillingarmál sem höfðu sprengt fyrri ríkisstjórnir. Þegar litið er yfir kjörtímabilið er svo sem hægt að sjá að ýmis stór mál voru samþykkt. Yfirleitt í þverpólitískri sátt en stundum þrátt fyrir ríkisstjórnarsamstarf þar sem stjórnarandstaðan bætti við nokkrum atkvæðum sem þurfti til þess að ná málum í gegnum þingið. Ríkisstjórnin er svo sem fullfær um að monta sig af þeim málum og rúmlega það, þ.e. af þeim þverpólitísku málum sem komið var í gegn hér.

Hér er samt viðeigandi að nefna það sem ríkisstjórnin vill ekki tala um. Ekki tókst að ná fram breytingum á almannatryggingakerfinu. Þar er enn verið að skerða kjör og áhugaleysi ríkisstjórnarinnar í þeim málaflokki hefur verið algjört. Það var einfaldlega hengd upp 4 milljarða gulrót og sagt: Gjörið svo vel, þið fáið þessa 4 milljarða ef þið viljið starfsgetumat. Það náðist ekki þannig að farið var hálfa leið með þá rétt rúmu 4 milljarða. Krónu á móti krónu skerðingu var breytt í aura á móti krónu skerðingu. Svo hefur afgangurinn verið nýttur í beingreiðslur af því að ekki hefur fundist nein lausn á kerfisbreytingum sem fólk er sátt við af því að það virðist vera að starfsgetumat sé eina lausnin sem stjórnvöld bjóða upp á.

Breytingar á fjölmiðlamarkaði heppnuðust ekki. Niðurstaðan varð sú að samþykkt var frumvarp um að veita 400 millj. kr. sem fara aðallega í að borga niður ósjálfbæran hallarekstur pólitískra málgagna. Það eina sem það þýðir er að útgerðin þarf ekki að skrifa eins stóran tékka fyrir hallarekstur Morgunblaðsins. Engar breytingar voru á kvótakerfinu. Ekki tókst að framfylgja niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um framlagningu nýrrar stjórnarskrár grundvallaða á frumvarpi stjórnlagaráðs. Húsnæðisvandinn er nokkurn veginn nákvæmlega sá sami og í upphafi kjörtímabilsins. Það þyrfti að byggja 2.200 íbúðir á ári næstu tíu árin til þess að vinna upp skortinn. Nú eru það 1.900 íbúðir á ári, það er smá árangur þar. En það er enn þá skortur, sem þýðir það að allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem koma til þess að mæta ákveðnum vanda vegna Covid — sem fór rosalega mikið í húsnæðismarkaðinn sem þurfti ekkert endilega á því að halda, sérstaklega ekki í skortsástandi. Það þýddi einfaldlega að húsnæðisverð hækkaði og verðbólgan fór að hækka og ofsalega gaman og skemmtilegt, alveg klassískt, þannig að það vantaði ákveðið samtal til að þar færu saman aðgerðir. Þarna þurfti enn þá meira framboð þrátt fyrir að það sé met í framboðsaukningu á húsnæði til að anna þeirri innspýtingu sem ríkið kom með inn á markaðinn. En það gerðist ekki og afleiðingin er hækkandi húsnæðisverð og allt sem það þýðir, sem er ekkert rosalega jákvætt, eins og við könnumst við frá upphafi kjörtímabilsins, sama gamla sagan.

Faraldurinn náði að búa til smá andrými á leigumarkaði, en það er frekar fyrirsjáanlegt að farið verður aftur í sama brjálæðið þegar ferðaþjónustan fer aftur af stað þar sem það er enn skortur á húsnæði.

Svo er enn þá fráflæðisvandi á Landspítalanum, eiginlega dálítið fyndið, leiðinlega fyndið.

Verkefnum hefur sem sagt alls ekki fækkað á þessu kjörtímabili. Þau sömu eru enn til staðar og við bætist síðan faraldurinn. Hjúkrunarfræðingar fóru aftur í gerðardóm. Kjör lífeyrisþega skerðast enn ár eftir ár. Það er búin að vera 5,7% skerðing á lífeyri almannatrygginga miðað við launaþróun. Þá er ekki einu sinni tekið tillit til lífskjarasamninganna sem auka enn kjaramuninn á þeim sem eru á lægstu launum miðað við lífeyri almannatrygginga, þannig að það er í tómu tjóni.

Spillingarmálin halda áfram og eftirlit með opinberum aðilum er lamað á öllum vígstöðvum.

Þetta er búið að vera súrrealískt kjörtímabil þar sem draga þarf fram upplýsingar með ítrekuðum fyrirspurnum af því að spurningum er ekki svarað. Stjórnsýslan felur sig aftur og aftur á bak við undanþáguheimildir í upplýsingalögum og aftur og aftur er sú vörn stjórnsýslunnar hrakin. Ég hef t.d. verið með nokkur eftirlitsmál í gangi innan fjárlaganefndar í nokkur ár. Ef svör berast þá berast þau seint og svara engu þannig að það þarf að spyrja aftur og bíða aftur. Frá mínum sjónarhóli er þetta núverandi ríkisstjórn í hnotskurn: Ef það koma svör þá eru það svör um eitthvað annað en um var spurt.

Það er pólitískur útúrsnúningur eins og fagfólki þar er einu lagið. Dæmi um það er að finna í yfirferð meiri hluta fjárlaganefndar um auknar fjárheimildir til málefnasviða. Þar bað ég um að breytingar á fjárheimildum á öllum málefnasviðum yrðu útskýrðar í stuttu máli. Meiri hlutinn hafnaði því að taka saman slíkar útskýringar og vísaði í fyrri fjármálaáætlun. Farið var yfir nokkur málefnasvið, eins og kom fram í framsöguræðu formanns fjárlaganefndar, en alls ekki öll, langt því frá. Eins og alþjóð ætti hins vegar að vita þá er gagnsæið í framsetningu fjármálaáætlunar og fjárlaga ekki mjög mikið og það er langt frá því sjálfsagt að hægt sé að skilja út á hvað breytingar á fjárheimildum þýða. Ég geri hér því tilraun til þess að komast að því hvaða skýringar er að finna á breytingum á fjárheimildum. Til þess vísa ég í skýringar í fjármálaáætlunum og fylgiritum fjárlaga. Hér er ég einmitt með kafla um auknar fjárheimildir til málefnasviða. Ég ætla hins vegar að geyma aðeins að fara yfir þá kafla, þeir eru hérna nokkrir. Ég sé til hvort ég hef tíma til þess í þessari ræðu eða hvort ég verð að fara yfir það í einstökum ræðum í kjölfarið því að þetta er dálítið viðamikið.

Mig langaði til að fara aðeins í kaflann um stefnu sem virkar, framtíð Pírata um stefnu sem virkar. Það er í raun mjög einfalt. Oft hefur verið talað um að Píratar séu teknókratar og hafi enga pólitík, vilji bara ræða ferla og form. Það hefur sérstaklega verið rætt í kringum umræður um fjármálaáætlun og fjárlög. Fjármálaráðherra hefur t.d. gagnrýnt Pírata fyrir að vera tæknikratar, eins og það sé eitthvað slæmt, sérstaklega þegar það er svo mikill skortur á því að verið sé að fylgja t.d. lögum um opinber fjármál. Við viljum einfaldlega að lögum og reglum sem þingið hefur sett framkvæmdarvaldinu sé fylgt. Það er ekki teknókratískara en það að hafa góða áætlanagerð. Ég skil ekki af hverju það er slæmt. Ef ég kallast þá teknókrati er það bara frábært. Ég tek því sem hrósi. En fjármálaráðherra finnst það greinilega ömurlegt því að þá þarf hann að fylgja lögum um opinber fjármál, sem mér finnst bara hlægilegt. Auðvitað á hann að gera það.

Ástæðan fyrir því er einföld og hana er að finna í grunnstefnu Pírata sem er aðgengileg öllum á vefsíðu Pírata en er birt hér til þægindaauka fyrir áhugasama. Grunnstefnan er pólitík Pírata. Hún snýst ekki um vinstri eða hægri og þar hætta margir að skilja af því að þar endar pólitík hjá velflestum. Pólitíkin verður einhvern veginn að vera bara hægri, vinstri, miðju eða eitthvað þvíumlíkt. Pólitík Pírata snýst um gagnrýna hugsun og upplýsta stefnu sem byggist á gagnsæi, ábyrgð, borgararéttindum og tjáningar- og upplýsingafrelsi. Þess vegna er hin ógegnsæja fjármálaáætlun gagnslaust drasl í augum Pírata og ber að meðhöndla hana sem svo. Ég skil vel að gagnrýnendum finnist þetta bara óþægileg pólitík, enda vilja þeir aðallega taka geðþóttaákvarðanir sem eru byggðar á því sem þeim finnst vera best og rétt samkvæmt almennri hugmyndafræði um að markaðurinn geri allt best eða að ríkið geri allt best, að arðurinn komi að ofan eða að markmiðið sé alltaf að stækka kökuna. Eins og ég hef áður farið yfir þá er kakan bara lygi því að hún er bara fyrir suma. Þess vegna hentar það þeim vel að stækka kökuna sem er bara fyrir suma, lygi fyrir alla aðra.

Ég held að það sé tilefni til að renna hérna yfir grunnstefnu Pírata sem við byggjum allt á. Við erum mjög fyrirsjáanleg í pólitík okkar af því að það er alltaf hægt að vísa í grunnstefnu okkar og við erum mjög hörð á því að víkja ekki frá henni. Hún skiptir okkur rosalega miklu máli. Það er rosalega mikilvæg pólitík að hafa það akkeri af því að við höfum séð ýmsar sveiflur þar sem lýsa sér í því að fólk þarf að kyngja ælu o.s.frv. af því að akkúrat í þessu máli hentar ekki að fara eftir stefnu flokkanna.

Við viljum grundvalla okkur á grunnstefnu okkar og við leggjum okkur öll fram við að fylgja henni. Þar er pólitík okkar. Hún byrjar á gagnrýninni hugsun og upplýstri stefnu, að við Píratar leggjum áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir. Þess vegna fórum við t.d. djúpt í orkupakkamálið. Ég fór í þýðingar á orkupakkanum á öðrum tungumálum og talaði við Dani og Svía um hvort ég skildi ekki örugglega ákveðin atriði í þýðingum hjá þeim, að þær þýddu eitt ákveðið tæknilega en ekki annað. Ég fór djúpt í það til að skilja hvort gagnrýnin sem var til staðar í þeirri umræðu væri réttmæt eða ekki. Gagnrýnin var bara bull, svo ég noti það einfalda orð, afsakið. Hún snerist um mjög ólíkleg tilvik þar sem það hefði þurft margendurtekið klúður stjórnvalda til að komast á einhvern ákveðinn stað varðandi málsókn og skaðabætur o.s.frv. Stjórnvöld hefðu þurft að klúðra ítrekað áður en við hefðum komist í svoleiðis kringumstæður, og það er hægt án þess að það séu einhverjir orkupakkar. Stjórnmál geta auðveldlega klúðrað án þess að það séu einhverjir orkupakkar og ef eitthvað er þá hjálpar orkupakkinn einmitt stjórnvöldum að klúðra ekki með því að hafa skilyrði um kerfisáætlanir og þess háttar og að eftirlitskeðjan sé skýr.

Í öðrum punkti segir að við Píratar mótum stefnu okkar í ljósi gagna og þekkingar sem aflað er óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki. Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir talsmenn hennar eru. Okkur finnst þetta gríðarlega mikilvægt. Við skoðum öll mál frá því sjónarhorni. Þess vegna styðjum við góð mál þó að þau komi frá flokkum sem við treystum ekkert endilega að gefnu tilefni.

Fyrri ákvarðanir Pírata þurfa alltaf að geta sætt endurskoðun af því að við fáum alltaf ný gögn. Aðstæður breytast. Pólitíkin þarf að læra þetta. Það getur verið að markaðslausn sé góð í dag en slæm á morgun af því að aðstæður breyttust, það er einfaldlega þannig. Faraldur skellur á, við verðum að hefta tímabundið ákveðin frelsisréttindi sem fólk reiknar með að hafa, t.d. með grímuskyldu o.s.frv. Við þurftum að taka aðrar ákvarðanir af því að aðstæður breyttust. Svo breytast aðstæður aftur. Faraldurinn fer og við breytum aftur til. Við reynum ekki að halda fast í það sem einu sinni hefur verið ákveðið af því að það getur orðið rangt þegar aðstæður breytast.

Réttur einstaklinga til að leita þess að verða upplýstir skal aldrei skertur. Það kemur inn á hinar ítrekuðu spurningar hjá mér sem aldrei er svarað. Það fer mjög í taugarnar á mér.

Annað atriði hjá okkur eru borgararéttindi. Við beitum okkur fyrir eflingu og verndun borgararéttinda. Þetta er lykilatriði. Við þurfum útvíkkun borgararéttinda sem skal miða við styrkingu annarra réttinda. Við þurfum að standa vörð um núverandi réttindi og gæta þess að þau séu ekki skert. Á þessi atriði reyndi mjög mikið í faraldrinum. Þá var tvímælalaust skerðing á núverandi réttindum. En miðað við aðstæðurnar, ef réttindi hefðu ekki verið skert hefði það mögulega þýtt skerðingu á öðrum réttindum, þ.e. heildarjafna réttinda hefði verið neikvæðari ef ekki hefði verið brugðist við t.d. með samkomutakmörkunum. Það er vægara úrræði en að hleypa faraldrinum lausum, þannig að það var fyrirsjáanleg skerðing á réttindum ef ekkert yrði gert, en minni skerðing á réttindum ef eitthvað yrði gert til að koma í veg fyrir það. Þannig að valið þar er augljóst og í samræmi við grunnstefnu Pírata.

Við teljum að borgararéttindi tilheyri einstaklingum og að réttur hvers og eins sé jafn sterkur. Þarna er engin sérhagsmunapólitík í gangi.

Þriðja atriðið er um friðhelgi einkalífsins. Það snýst um vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri. Þeir sem fylgst hafa með Pírötum í pólitík ættu strax að kveikja á hvernig þetta hefur áhrif á hegðun okkar og viðbrögð við ýmsum málum sem koma fyrir þingið. Píratar telja að allir einstaklingar eigi rétt á friðhelgi í sínu einkalífi. Til friðhelgi telst réttur til leyndar og nafnleysis, og sjálfsákvörðunarréttur. En leynd á aldrei að ná lengra en þörf er til að vernda einstaklinginn og aldrei svo langt að það hafi áhrif á aðra einstaklinga.

Nafnleysi hefur hins vegar ekki þann tilgang að skjóta einstaklingi undan ábyrgð. Það er lykilatriði. Ábyrgð er mikilvæg þarna þó að við verðum að virða nafnleysisréttinn. Það endurspeglar afstöðu okkar í svo mörgum málum sem koma fram hér á þingi. Þetta er pólitík 101, réttindi sem við erum búin að berjast fyrir á undanförnum öldum að ná fram. Tilefni þess er svo fjölbreytt.

Fjórða atriðið snýst um gagnsæi og ábyrgð. Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni. Þetta rímar við að friðhelgi einkalífsins snýst um að vernda hina valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri. Pólitíkin verður ekki mikið meira en þetta þegar allt kemur til alls.

Píratar telja gagnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvarðanatöku. Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi. Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á opnum gagnasniðum, á því formi sem hentugast er að nota upp á notagildi upplýsinganna.

Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir. Píratar telja að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni, og rétt til vitneskju um það hvernig slíkar ákvarðanir hafi verið teknar. Þarna kemur pólitík okkar um það að virkja nærsamfélagið, að hlusta á þá sem vilja hafa eitthvað að segja um málefni umhverfis síns. Þess vegna fara tillögur um að taka sjálfsákvörðunarrétt Reykjavíkurborgar á skipulagi, t.d. vegna Reykjavíkurflugvallar, mjög í taugarnar á okkur, nákvæmlega út af þessu, af því að þetta er grunnstefna okkar. Þetta eru gildin sem við viljum fyrir alla, ekki bara íbúa Reykjavíkur heldur alls landsins.

Upplýsinga- og tjáningarfrelsið er gríðarlega mikilvægt og er fimmta atriðið. Takmörkun á frelsi fólks til að safna og miðla upplýsingum er óásættanleg, nema til verndar borgararéttindum einstaklinga. Takmörkun á frelsi fólks til að tjá sig er óásættanleg, nema til verndar borgararéttindum einstaklinga.

Það er hægt að takmarka tjáningarfrelsi. Margir rugla fundarstjórn við ritskoðun eða takmörkun á tjáningarfrelsi. Það er náttúrlega bara bull. Ef einhver kemur heim til mín, bankar upp á og ætlar að fara að þylja upp úr Biblíunni þá loka ég bara dyrunum. Það eru engin skerðing á tjáningarfrelsi að gera það, viðkomandi getur gert það heima hjá sér.

Að lokum er það síðan beint lýðræði og sjálfsákvörðunarréttur. Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá. Réttur er tryggður með styrkingu beins lýðræðis og eflingu gagnsærrar stjórnsýslu. Píratar telja að draga þurfi úr miðstýringu valds á öllum sviðum og efla þurfi beint lýðræði í þeim formum sem bjóðast. Það er augljóst að okkur finnst sjálfsagt að taka mark á niðurstöðum ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um upptöku nýrrar stjórnarskrár, framlagningu hennar, af því að þar var beint lýðræði. Það var fólk sem lagði það til. Þess vegna vorum við meira að segja til í þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, þó að við værum gríðarlega mikið á móti því hvernig gagnrýnin á orkupakkamálið var. Þrátt fyrir að við værum sammála um að orkupakkamálið væri gott mál vorum við samt tilbúin til þess að leggja til þjóðaratkvæðagreiðslu um það ef það næði þeim þröskuldi sem kveðið er á um í drögum að nýrri stjórnarskrá um fjölda undirskrifta, 10%. Sá fjöldi undirskrifta náðist ekki þannig að við lögðum ekki fram þá tillögu.

Við erum til í að beita valdi á þann hátt sem fólk velur þó að við séum ósammála því hvernig það er gert, svo lengi sem það brýtur að sjálfsögðu ekki á grundvallarmannréttindum. Við förum ekki að greiða atkvæði um það að svipta fólk borgararéttindum, t.d. ríkisborgararétti.

Þarna liggur pólitík Pírata, í grunnstefnunni og öllum ályktunum út frá henni. Mér finnst nauðsynlegt að hafa hana til hliðsjónar í þessari umræðu því að hérna erum við einmitt að glíma við stefnuleysi. Við erum að glíma við stefnu sem rennur út 2023 og ekkert er lagt til í framhaldinu nema vandamál sem þarf að leysa á einhvern hátt sem ekki er tiltekinn. Stefnan sem er að renna út 2023 er ekki stefnan sem sett var miðað við faraldursástandið, hún er stefnan sem sett var fyrir það ástand. Það er langt frá því að vera gott.

Ég ætla að klára ræðuna á því að fara yfir breytingartillögurnar sem ég legg til hérna. Þetta er samantekt á þeim 15 breytingartillögum í útgjaldarammanum sem Píratar hafa lagt fram í fjárlögum á þessu kjörtímabili.

1. Við höfum lagt til 50 millj. kr. aukningu til frumkvæðisverkefna umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar, enda hafa þau embætti kvartað yfir því að þau geti ekki sinnt frumkvæðisrannsóknum. Þar er eftirlitið með opinberum aðilum sem er algerlega nauðsynlegt til þess að við sjáum hvort verið sé að svína á réttindum okkar. Við viljum ekki að það sé gert, við viljum ekki að framkvæmdarvaldið geri það og við viljum hafa umboðsmann Alþingis sem getur fylgst með því að eigin frumkvæði þegar það gerist. — En nei, það er ekki samþykkt.

2. Við leggjum til um 30 millj. kr. hækkun til héraðssaksóknara vegna aukinna verkefna. Nú hefur það komið fram að búið er að leggja niður embætti skattrannsóknarstjóra og flytja það til héraðssaksóknara. Umfang þeirra verkefna sem eru enn þá í bið, biðlisti verkefna hjá héraðssaksóknara, er enn óbreytt frá því áður en Samherjamálið kom til sögunnar, þannig að það er tvímælalaust tilefni til þess að fjármagna það betur til þess að hægt sé að klára þau mál sem héraðssaksóknarar eru að glíma við.

3. Við leggjum til 30 millj. kr. hækkun til ríkisskattstjóra vegna eftirlits með skattsvikum og vinnumansali.

4. Við leggjum til aukningu í málefnasvið hagsýslugerðar og grunnskrár til þess að uppfæra og betrumbæta hagfræðilegar upplýsingar. En mikið hefur verið kvartað undan því að við séum ekki með tímanlegar upplýsingar og við þurfum að gera miklu betur þar.

5. Lagt er til að ekki verði hætt tímabundnu átaki í nýsköpun.

6. 100 millj. kr. í grunnrekstur Landhelgisgæslunnar og 100 millj. kr. í sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu og eftirlit lögreglu með mansali.

7. 120 millj. kr. til Persónuverndar vegna aukinna verkefna vegna persónuverndarlöggjafarinnar. 5,3 milljarða kr. lækkun vegna niðurfellingar sóknargjalda og til að afnema kirkjujarðasamkomulagið. 300 millj. kr. til að tryggja rekstrargrundvöll sýslumannsembættanna. 60 millj. kr. fyrir sjálfstæða mannréttindastofnun. Samtals tæp 5 milljarða kr. lækkun á þessu málefnasviði.

8. 25 millj. kr. til Vinnumálastofnunar vegna eftirlits með vinnumansali.

9. 4 milljarðar kr. til þess að fjármagna aðgerðir vegna breytinga á stefnu úr 40% samdrætti á gróðurhúsalofttegundum í 55% samdrátt á losun.

10. 150 millj. kr. í lægra aðhaldsstig á málefnasviði framhaldsskóla.

11. 3,8 milljarðar kr. til þess að mæta uppsöfnuðum halla Landspítala árið 2023 til þess að standa við skuldbindingar gagnvart rekstrarsamkomulagi við spítalann.

12. Leiðrétting á málefnasviðum 27 og 28 til að jafna kjör lífeyrisþega til jafns við lífskjarasamninga. Það eru 3 milljarðar kr. á málefnasviði 27 og 3,5 milljarðar kr. á málefnasviði 28. Þá vantar 5,7% hækkunina sem lífeyrir almannatrygginga hefur rýrst um umfram launaþróun.

13. Síðan eru það 100 millj. kr. til þess að uppfylla mótframlag ríkisins til starfsendurhæfingarsjóðsins VIRK.

14. 12 milljarðar til húsnæðismála, þ.e. til nýbyggingar, til sölu og útleigu íbúða, í formi stofnframlags og hækkaðra framlaga inn í húsnæðissamvinnufélög. Þetta er til að vinna upp skortinn á húsnæðismarkaðnum, þ.e. þegar virkilega þarf að gefa innspýtingu þá fari það ekki bara í hækkanir. Það þarf að vera jöfnun þarna á framboði og eftirspurn.

15. Og að lokum 7,5 milljarðar kr. til þess að afnema krónutöluskerðingar.

Þetta er ákveðin yfirsýn yfir þau mál sem við höfum verið að leggja áherslu á í útgjaldamálum. Það eru nokkur í tekjumálum líka, þ.e. hækkun persónuafsláttar o.s.frv. Ég hef verið að íhuga hvort ég ætti líka að leggja fram uppsafnaða breytingartillögu hvað það varðar. Það þarf mögulega að endurreikna það aðeins en ég athuga hvort ég næ því, kannski næ ég að leggja það fram seinna í dag eða strax í fyrramálið.

Forseti. Ég klára þennan part hérna og fer þá aftur á mælendaskrá til að skoða betur kaflann um auknar fjárheimildir til málefnasviða í seinni ræðu.