Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

matvælaöryggi og stuðningur við landbúnað.

[14:29]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að vitna í það sem kemur fram í stjórnarsáttmála, með leyfi forseta, um landbúnaðarmál. Þar segir:

„Sett verða metnaðarfull markmið um að auka hlutfall hollra og næringarríkra innlendra matvæla til að treysta fæðuöryggi.“

Nú berast fregnir af því að innlend kjötframleiðsla dragist verulega saman samhliða miklum rekstrarerfiðleikum í fleiri búgreinum. Því er spáð að innlend kjötsala dragist mikið saman á næstu árum. Innflutningur á kjötvörum hefur stóraukist á síðustu árum og virðist ekki linna og framleiðsla á innlendum kjötafurðum stendur ekki undir nauðsynlegri fjárfestingu. Með þessu áframhaldi munum við horfast í augu við gríðarlegan samdrátt í íslenskum landbúnaði með tilheyrandi skorti á svína-, nauta- og lambakjöti ef ekki verður gripið til aðgerða. Þetta er þeim mun sorglegra þar sem landbúnaðarháskólarnir eru fullir af áhugasömu og kraftmiklu ungu fólki sem vill búa, tryggja fæðuöryggi landsins og viðhalda sérstöðu Íslands því landbúnaðurinn er svo miklu meira en einungis matvælin. Hann er samofinn menningu okkar og sögu og um margt hefur Ísland yfirburðarstöðu hvað heilbrigði dýrastofna varðar og hreinleiki landsins er einstakur á heimsvísu. Landbúnaðurinn er hryggjarstykkið í hinni dreifðu byggð og er mikilvægur þegar kemur að móttöku innlendra og erlendra ferðamanna en hann leggur í raun til litina, lyktina og leiktjöldin á því leiksviði sem innlendir og erlendir ferðamenn sjá. Því má segja að án landbúnaðarins yrði ansi dauflegt um að litast í sveitum landsins. Að mínu viti lýsir það hnípinni þjóð sem nær ekki að næra þann jarðveg sem landbúnaðinum er lífsnauðsynlegur.

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra hvort ekki sé kominn tími á að snúa bökum saman, hvort ekki sé óhjákvæmilegt að stofna starfshóp sem leggur til alvöruaðgerðir til að rétta úr kútnum og koma íslenskum landbúnaði (Forseti hringir.) aftur á réttan stað með tryggu fæðuöryggi þar sem landsmenn geta áfram fengið gæðaafurðir án áhyggna af t.d. sýklalyfjaónæmi.