Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

390. mál
[14:48]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Forseti. Það kemur mjög á óvart að framsögumaður umhverfis- og samgöngunefndar í þessu máli kannist ekki við að það hafi verið talað um að hér sé leið fram hjá umhverfismati. Það var meginstefið í umfjöllun nefndarinnar, meginþungi umræðu hér í fyrri umræðum í þingsal, vegna þess að í frumvarpinu er veitt leyfi fyrir hjáleið fram hjá umhverfismati. Ef forsendur umhverfismats bresta og það er fellt úr gildi er búin til leið til að leyfa framkvæmdina engu að síður. Það er hjáleið. Það er ekki úlfur, úlfur. (Gripið fram í.) Það er bara skýr lestur á lagatextanum og eitthvað sem hefur ekki af hálfu meiri hlutans verið sýnt fram á að sé rangt.

Svo vil ég, fyrst við erum með hæstv. forsætisráðherra í salnum, benda á að á sama tíma og ríkisstjórnin ætlar að tala við leiðtoga Evrópuráðsins um að lögfesta réttinn til heilnæms umhverfis sem hluta af mannréttindum (Forseti hringir.) þá gengur í þveröfuga átt að ætla að vinna gegn þeim réttindum hér á heimavelli með því að samþykkja þetta frumvarp. (Forseti hringir.) Atkvæðagreiðslan í dag gengur ekki upp í samhengi þess sem er að gerast á alþjóðavísu en það er svo sem (Forseti hringir.) alveg í takt við það sem þessi ríkisstjórn gerir gjarnan.