Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

stjórn fiskveiða.

539. mál
[15:03]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur þá er margt sem á eftir að finna út úr til þess að geta farið í rafvæðingu smábáta. Innviðirnir eru eitt, hvatinn er annað. Það nefnilega kostar milli 30 og 40 millj. kr. að breyta bátum yfir í það að geta verið rafvæddir en sá hvati sem er í frumvarpinu er í besta falli að fara að gefa sjómönnum 1,5–2 millj. kr. á ári. Það mun taka langan tíma að fara í þetta og því er þetta frumvarp svolítið eins og nýju fötin keisarans. Það verða kannski einn til tveir bátar á næstu fimm árum sem munu breyta. Við getum ekki sagt að rafvæðing smábátaflotans sé komin á fullt fyrr en eitthvað meira er gert en boðið er upp á í þessu frumvarpi.