Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[15:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli [fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

Málinu var vísað til efnahags- og viðskiptanefndar að nýju að lokinni 2. umr. Rætt var um þá ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að fella jarðgas og kjarnorku undir flokkunarkerfi ESB fyrir sjálfbærar fjárfestingar. Einskorðaðist umfjöllun nefndarinnar við þá ákvörðun og áhrif mögulegra málaferla vegna flokkunarkerfisins gagnvart Evrópusambandinu. Nefndin óskaði eftir að ráðuneytið tæki saman upplýsingar um þá ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar og að hvaða leyti Ísland væri skuldbundið til að taka upp flokkunarkerfið með sama hætti. Jafnframt var óskað eftir upplýsingum um það hvaða áhrif möguleg málaferli umhverfissamtaka vegna ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar hefðu á skuldbindingar Íslands við innleiðingu á umræddum reglugerðum.

Í nefndaráliti eru rakin helstu sjónarmið sem fram koma í minnisblaði ráðuneytisins. Þar kemur m.a. fram að samkvæmt reglugerðinni eru gerðar mun ríkari kröfur til kjarnorku- og jarðgasvera en til annarra orkugjafa. Meðal annars falli jarðgasver undir þann flokk að teljast umbreytingarstarfsemi, þ.e. þau verða að stefna að því að skipta jarðgasi úr fyrir endurnýjanlega orku eða orku með lága kolefnislosun fyrir árið 2035. Þá þurfi kjarnorkuver að uppfylla ákveðin skilyrði um öryggi og staðlaða meðhöndlun úrgangs.

Ekki hefur farið fram umræða um það hvaða beinu hagsmuni Ísland hefði af því að setja fram fyrirvara um innleiðingu reglugerðarinnar eða hvaða áhrif slíkir fyrirvarar hefðu á samningsstöðu ríkisins að öðru leyti. Jafnframt er bent á það í minnisblaðinu að leiði málaferli til þess að gera þurfi lagabreytingar á flokkunarkerfinu komi þær til framkvæmda hér á landi með sama hætti og aðrar reglur ESB sem teknar eru upp í EES-samninginn.

Lagðar eru til nokkrar breytingar sem eru tæknilegs eðlis og um efni þeirra vísast til nefndarálitsins.

Formaður vill taka það sérstaklega fram hér hvað varðar þjónustu lífeyrissjóða að sú þjónusta lífeyrissjóða sem snýr að viðbótartryggingavernd fellur undir starfsemi aðila á fjármálamarkaði eins og hugtakið er skilgreint í 1. tölulið 1. mgr. 1. gr. SFDR-reglugerðarinnar, sjá d-lið ákvæðisins, og fellur því undir allt regluverkið en lágmarkstryggingaverndin aðeins að hluta til.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í nefndaráliti.

Undir nefndarálit meiri hlutans rita auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Þórarinn Ingi Pétursson, Guðbrandur Einarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Jóhann Páll Jóhannsson og Lilja Rafney Magnúsdóttir.