Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[15:12]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegur forseti. Er fjárfesting í kjarnorkuveri sjálfbær fjárfesting? Er sjálfbært að fjárfesta í gasframleiðslu til húshitunar? Álit mitt og okkar Pírata og raunar allra helstu umhverfissamtaka sem vettlingi geta valdið í Evrópu er að það er ekkert sjálfbært við kjarnorkuver eða gasver eins og þau eru svo óþjállega kölluð. Eftir sem áður á að viðurkenna fjárfestingu í uppbyggingu og jafnvel starfsemi slíkrar orkuframleiðslu. Það á að viðurkenna það sem sjálfbæra fjárfestingu. Þetta gerum við athugasemd við og þetta er ástæðan fyrir því að sú sem hér stendur óskaði eftir því að málið yrði tekið aftur inn í nefnd milli 2. og 3. umr., sér í lagi vegna þess að þessar fyrirætlanir munu lenda eða eru í málaferlum, m.a. ætla Austurríki og Lúxemborg að láta reyna á þessa ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins fyrir Evrópudómstólnum vegna þess að það er ekki hægt að halda því fram að fjárfesting í kjarnorkuverum og fjárfesting í gasframleiðslu sé sjálfbær fjárfesting.

Aðeins um efni máls. Þetta frumvarp felur í sér innleiðingu í íslenskan rétt á ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu en að mati minni hlutans verður að gera alvarlegar athugasemdir við innleiðinguna og reglugerðina sem hún byggir á. Evrópusambandið hefur sett sér markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, sem þátt í aðgerðum til að ná þessum samdrætti hefur verið ráðist í fjölmargar aðgerðir sem snerta fjármálakerfið, m.a. breytingar á regluverki sem varðar sjálfbærar fjárfestingar. Hin svokallaða Taxonomy-reglugerð býr til ramma utan um sjálfbærar fjárfestingar. Markmið hennar er að styðja sérstaklega við þær fjárfestingar sem þjóna að lágmarki einu af sex nánar skilgreindum markmiðum þannig að til þess að fjárfesting teljist sjálfbær þá þarf hún að þjóna einu af eftirtöldum sex markmiðum sem eru: að draga úr loftslagsbreytingum, aðlögun að loftslagsbreytingum, sjálfbær nýting auðlinda sjávar, umbreyting í hringrásarhagkerfi, mengunarvarnir og vernd og endurheimt vistkerfa.

Hér stend ég og skil ekki hvernig gasvinnsla og kjarnorkuúrvinnsla falli undir neitt af þessum markmiðum en samt sem áður voru við vinnslu málsins hjá Evrópuþinginu gerðar afar óheppilegar breytingar, þær breytingar að nákvæmlega þessi orkuvinnsla, þessi ekki sjálfbæra orkuvinnsla, væri viðurkennd sem sjálfbær fjárfesting. Málið varð þar af leiðandi afar umdeilt innan Evrópuþingsins þó að reglugerðin hafi engu að síður tekið gildi. Ástæðan fyrir því að þetta er mjög umdeilt, eins og ég hef komið inn á, er að með því að skilgreina jarðgas annars vegar og kjarnorku hins vegar sem sjálfbæra lausn á loftslagsvánni gagnast reglugerðin mun verr til að ná markmiðum um samdrátt í losun og þýðir að óhreinn iðnaðar muni hafa aðgengi að sama flokkunarkerfi og aðrir vistvænir orkugjafar. Eins er augljóst að gas- og kjarnorkunýting nær engum þeirra sex markmiða sem reglugerðinni er ætlað að uppfylla. Setning reglugerðarinnar hefur haft víðtæk áhrif þar sem fjöldi náttúruverndarsamtaka hefur sagt sig úr vettvangi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um sjálfbærar fjárfestingar í mótmælaskyni. Ríkisstjórnir Austurríkis og Lúxemborgar hafa lýst því yfir að þær hyggist láta reyna á lögmæti reglugerðarinnar fyrir Evrópudómstólnum auk þess sem evrópsk náttúruverndarsamtök hafa hafið málaferli vegna ákvörðunarinnar. Alls er óvíst hverjar afleiðingar þessarar dómsmála verða.

Snúum okkur nú aðeins að afstöðu Íslands og þingsins í þessu mikilvæga máli. Málið var kallað inn til nefndar milli 2. og 3. umr. til að fjalla um þá ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að fella jarðgas og kjarnorku undir flokkunarkerfi ESB fyrir sjálfbærar fjárfestingar. Nefndin óskaði eftir minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem því er lýst að óvíst sé hvaða beinu hagsmuni Ísland hafi af því að setja fram fyrirvara um hvort jarðgas- og kjarnorkuframleiðsla geti talist sjálfbær. Fram kemur einnig í minnisblaði ráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Í því sambandi er rétt að minna á ströng skilyrði sem eru sett fyrir flokkun slíkra orkugjafa svo þeir teljist sjálfbærir í skilningi umræddra reglna. Eins og áður segir þá vinna Evrópuríki nú að því hörðum höndum að mæta orkuþörf sem áður byggðist m.a. á innflutningi á jarðgasi frá Rússlandi á sama tíma og orkuskiptum verður almennt hraðað. Á sama tíma er ljóst að íslensk stjórnvöld sækja einnig um tímabundnar lausnir vegna losunarkostnaðar í millilandaflugi.“

Hér hafið þið ástæðuna fyrir því, virðulegi forseti, hvers vegna meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar var ekki tilbúinn að bregðast við þessum áhyggjum þeirrar sem hér stendur, hvers vegna stjórnvöld eru ekki tilbúin að beita sér fyrir því að viðurkenna ekki ósjálfbærar fjárfestingar sem sjálfbærar fjárfestingar. Það er vegna þess að við viljum vinna gegn umhverfinu á öðrum vettvangi þannig að það er erfitt fyrir okkur að vera að beita okkur fyrir því á þessu. Við erum ekki tilbúin að beita okkur fyrir því að upplýsingar um fjárfestingar séu réttar vegna þess að við viljum fá afslátt af því hvað við þurfum að borga fyrir losunarheimildir af flugferðum.

Þannig er ljóst að ráðuneytið og meiri hlutinn telur hagsmuni Íslands betur varða með því að beita sér fyrir undanþágum frá álagningu losunarkostnaðar í millilandaflugi en minni hlutinn vill árétta að stjórnvöld hvers tíma hafa í hendi sér að ákveða með hvaða hætti þau beita sér gagnvart samstarfsríkjum þegar kemur að alþjóðlegum aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Þessi forgangsröðun bendir því miður til þess að skammtíma fjárhagslegir hagsmunir séu látnir ganga framar hagsmunum framtíðarkynslóða og baráttunni gegn loftslagsbreytingum í huga ríkisstjórnarinnar.

Þrátt fyrir miklar áhyggjur af innleiðingu reglugerðarinnar, yfirstandandi málaferlum og óvissu varðandi lögmæti hennar ákvað meiri hluti nefndarinnar að afgreiða málið með vísan til þess að í reglugerðinni séu gerðar ríkari kröfur til kjarnorku- og jarðgasvera. Þar segir, með leyfi forseta:

„Jarðgasver falli t.d. undir þann flokk að teljast umbreytingarstarfsemi, þ.e. þau verða að stefna að því að skipta jarðgasi út fyrir endurnýjanlega orku eða orku með lága kolefnislosun fyrir árið 2035. Þá þurfi kjarnorkuver að uppfylla ákveðin skilyrði um öryggi og staðlaða meðhöndlun úrgangs.“

Jafnvel þótt slíkir hvatar, virðulegi forseti, kunni að vera jákvæðir gagnvart þeim iðnaði sem þegar er til staðar þá er ekki þar með sagt að það sé rétt að flokka jarðgas og kjarnorku sem sjálfbærar fjárfestingar til framtíðar. Það er einfaldlega blekkjandi fyrir almenning og þjónar ekki því markmiði sem sjálfbærum fjárfestingum er ætlað að þjóna. Réttara hefði verið að kanna í þaula hvort hægt væri að hreinsa reglugerðina af hagsmunagæslu gas- og kjarnorkuframleiðenda við innleiðingu. Í sínu endanlega formi þjónar Taxonomy-reglugerðin einfaldlega ekki því mikilvæga markmiði að stuðla að sjálfbærum fjárfestingum heldur getur hún aukið upplýsingaóreiðu og grænþvott. Verulegar efasemdir eru einnig um hvort reglugerðin standist markmið Parísarsáttmálans. Það er því miður að meiri hluti nefndarinnar hafi ákveðið að þrýsta málinu áfram fremur en að staldra betur við, vinna að lausnum og nýta þannig tækifæri til að þrýsta á grænar umbreytingar.