Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér rennur blóðið til skyldunnar að koma hér upp sem Sjálfstæðismaður. Ég vil ekki leggja hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur orð í munn en ég get mér þess til að henni hafi þótt það örlítið spaugilegt að þetta pólitíska litróf hafi tekið þátt í umræðunni, Píratar og Miðflokkurinn.

Vitaskuld heyrðum við það sem sagt var. Þær athugasemdir sem hér hafa verið nefndar hafa verið af gjörólíku tagi, rétt eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir nefndi áðan.

Í máli Pírata hafa komið fram áhyggjur þeirra hvað varðar jarðgas og kjarnorku. Mér þótti ágætt að taka málið aftur til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd. Aftur á móti hefur formaður Miðflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, viljað nálgast málið út frá reglugerðum Evrópusambandsins og fundið málinu allt til foráttu hvað það varðar.

Ég vil ítreka það að fjárfestar hafa kallað eftir því að til sé samræmt kerfi hvað þetta varðar. Þess vegna tel ég að þetta mál sé gott. Ég held að það komi í veg fyrir grænþvott og auðveldi fagfjárfestum að taka ákvarðanir hvað varðar fjárfestingar í sjálfbærni og yfir landamæri. Þetta flókna kerfi verður eins í löndunum innan ESB og aðallega EES-samningsins.