Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

tónlist.

542. mál
[16:43]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir andsvarið. Ég er innilega sammála hv. þingmanni þegar kemur að stuðningi við stofnanir úti á landi, tónlistarstofnanir og aðrar, þar sem margar höfuðstofnanir eru hér á höfuðborgarsvæðinu eins og hann sagði sjálfur. Eitt af því sem fram kemur í frumvarpinu er að í tónlistarmiðstöðinni verði nýtt fyrirkomulag, sem hefur ekki verið formlega stofnað enn þá, sem er kallað Inntón og mun að vissu leyti stuðla að auknum tengslum og samstarfi höfuðborgar og landsbyggðarinnar í þágu tónlistar. En það var ekki tekin sérstök umræða að mig minnir um stöðu tónlistar á landsbyggðinni. Það er þó margt, bæði í þessu frumvarpi og tónlistarstefnunni sem ég talaði fyrir hér áðan, ég kom með nefndarálit, sem fjallar um stöðu tónlistarfólks úti um allt land sem og þeirra staða þar sem flutt er tónlist, þá myndi t.d. Hof falla undir það, og að það verði gerð greining á stöðu tónlistar á öllu landinu með það í huga að styrkja stöðu tónlistar úti um allt land. Ekki var tekið fyrir sérstaklega landsbyggð eða höfuðborg í þeirri umræðu en ég er þó alveg sammála því sem fram kom í máli hv. þingmanns að við hefðum átt að taka kannski sérstaka umræðu í nefndinni um stöðu tónlistar fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Ég held að það muni samt sem áður geta fallið undir bæði þau mál sem koma fyrir í tónlistarstefnunni sem og í tónlistarlögunum.