Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála o.fl.

735. mál
[17:01]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Við erum að ræða hér samþættingu áætlana sem heyra undir innviðaráðuneytið. Auðvitað er afar mikilvægt að samþætta áætlanir samgangna, húsnæðis-, skipulags- og byggðamála, en það kom inn ágætisumsögn frá sjálfum Bændasamtökum Íslands þar sem minnt var á að einnig væri mjög mikilvægt að taka atvinnulífið með í reikninginn. Ég held að vinkill Bændasamtaka Íslands sé mjög mikilvægur og mætti taka hann inn í þessar áætlanir þannig að menn horfi ekki bara einangrað á þessa áætlun án þess að ræða aðra hluti. Það er stundum eins og byggðamálin verði bara einhver sérumræða sem snertir ekki aðra þætti. En auðvitað snerta byggðamálin og samgöngumálin aðra þætti. Það þekkja íbúar Húnaþings vestra sem komast varla ferða sinna um héraðið, Vatnsnesveg, og svona má lengi telja um land allt. Þetta er auðvitað samtvinnað, byggðamálin og samgöngumálin. Mikilvægt er að ræða þetta og að þessar áætlanir tali að einhverju leyti saman.

Ég sakna einnar umsagnar hér. Bændasamtökin skiluðu inn sinni umsögn og árétta það á hverjum fundinum á fætur öðrum hvað þessi atvinnuvegur skiptir miklu máli fyrir hinar dreifðu byggðir landsins. En ég sakna þess örlítið að ekki sé tæpt á sjávarútvegsmálunum og að sá þáttur komi til umræðu, ekki síst vegna þess að eitt af hlutverkum fyrrnefndrar Byggðastofnunar er að úthluta byggðakvótum og það er ekkert smáræði, 5.000 tonn. Það skiptir verulega miklu máli að það sé vel farið með þessar úthlutanir. Því er sá þáttur sem þarf að fara yfir í samhengi þessara þátta sem verið er að samtvinna hér atvinnulífið á landsbyggðinni; landbúnaðurinn, sjávarútvegurinn og ferðamennskan. Það er ekkert hægt að hlaupa yfir það.

Ég hef tekið eftir því hér á síðustu vikum í þinginu, eftir að ég datt nokkuð óvænt inn sem varaþingmaður, að í meðförum þingnefnda er eins og það sé strokað yfir þennan byggðavinkil, sérstaklega þegar kemur að sjávarútveginum. Það er eins og að menn treysti sér ekki í þá umræðu og það er allt á sjálfstýringu í þá átt að svipta í raun sjávarbyggðirnar meira og minna atvinnuréttindum. Við erum t.d. með til meðferðar í þinginu lítið grásleppufrumvarp sem gengur út á að gera útróðraréttinn að söluvöru og einkavæða hann. Svo undarlegt sem það nú er kemur það frá matvælaráðherra sem er eftir því sem ég best veit enn þá skráð — ég veit það ekki, kannski hefur það breyst — í Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. Stefna hennar í því máli gengur náttúrlega þvert á stefnu flokksins og líka, sem er náttúrlega alvarlegra, stefnuna í byggðamálum sem er í orði einhver allt önnur, um að frekar eigi að púkka undir þessar byggðir heldur en að leggja stein í götu þeirra.

Ég tel afar mikilvægt, ef menn ætla sér að ná árangri í byggðamálum, að samtvinna þessa atvinnuvegi betur, bæði hvað varðar umfjöllun um landbúnaðinn og ekki síður sjávarútveginn. Það er í rauninni hálfgert hneyksli að Alþingi Íslendinga sé að vinna með eitthvert frumvarp sem grefur beinlínis undan sjávarbyggðum. Síðan ef gefa á eitthvert örlítið rými, t.d. til strandveiða sem hófust í dag, þá virðist kerfið nánast fara á taugum yfir því að 1.000–2.000 tonn af þorski, sem ekkert er, fari til aukinna strandveiða. Ég vona og bind sérstaklega vonir við að vinir mínir í Sjálfstæðisflokknum horfi til frelsis í auknum mæli hvað varðar undirstöðuatvinnugreinar. Í stað þess að einblína á frelsið til að selja brennivín í búðum ætti að horfa meira á þessa þætti sem skipta venjulegt fólk og þjóðina máli. Ég vil benda á að það er hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar að til séu litlar sjávarbyggðir og að bændur yrki jörðina hringinn í kringum landið. Menn eru bundnir í eitthvert kerfi alveg út í eitt og geta sig vart hreyft, telja sig vera bundnir í kvóta og ég veit ekki hvað, og þess vegna veit ég að það felast miklir möguleikar í því að gefa íbúum sjávar- og landbúnaðarbyggða hringinn í kringum landið meira frelsi en nú er og vera ekki að binda allt í einhvern ljótan kvóta.

Aftur að þessu ágæta frumvarpi. Það er auðvitað nauðsynlegt að tryggja samhæfingu áætlana og síðan, þegar menn hafa einhverjar bjargir fyrir byggðirnar, hvort sem það eru styrkir eða annað, byggðakvótar t.d., að allir þingmenn leggist á eitt við að veita því til samfélaganna þannig að það nýtist vel. Það er auðvitað ekkert lag á því að t.d. byggðakvótar fari til útgerða sem eru komnar upp fyrir kvótaþakið. Hvað er það? Menn eru farnir á svig við lög og fá þá úthlutun frá hinu opinbera. Það er auðvitað eitthvað sem ekki er hægt að sætta sig við, eða, eins og dæmin sýna, að sjávarbyggð fái úthlutað byggðakvóta vegna bágrar stöðu og byggðakvótanum sé ekki landað í viðkomandi byggð. Það er algerlega út úr korti og það held ég að allir sanngjarnir menn, hvort sem þeir eru í Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum eða hvar í flokki sem þeir standa, sjái að ekkert vit er í. Ég held að ljóst sé að þessu verði breytt. Það eru mikil tækifæri til breytinga, sérstaklega hvað varðar sjávarbyggðirnar, og ég vona svo sannarlega að í ljósi þess að menn eru að samtvinna hér húsnæði, skipulag, samgöngur og byggðamál, verði líka horft til þess að vera ekki á sama tíma að reka mál áfram í nefndum sem augljóslega munu ganga þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum, þá nefni ég t.d. þetta furðulega grásleppufrumvarp.

Að öðru leyti tek ég undir þau markmið sem koma fram í frumvarpinu, að það sé einhver samþætting og einhver raunveruleg stefna, að menn séu ekki að reka byggðastefnu fyrir hádegi en leggja fram frumvörp eftir hádegi og sýna af sér stjórnarathafnir í ráðuneytinu sem ganga þvert á framtíð þessara byggða.