Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

Orkuveita Reykjavíkur.

821. mál
[17:26]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langaði bara að taka undir þetta frumvarp og þetta nefndarálit sem hv. þm. Berglind Ósk Guðmundsdóttir flutti fyrir hönd nefndarinnar. Það er mikilvægt að átta okkur á því að nýsköpun getur átt sér stað hvar sem er, þar á meðal í opinberum fyrirtækjum. Við þurfum að passa að það séu lagarammar og skilyrði til að hægt sé að stunda nýsköpun innan þessara stofnana og fyrirtækja og síðan sé hægt, þegar rétti tíminn er kominn, að spinna það út í dótturfyrirtæki sem getur sótt fjármagn annars staðar frá til þess að fara með þessa tækni og skala hana upp víðs vegar um heim. Ég held að það sé mikilvægt að við áttum okkur á því að þetta þurfum við alltaf að styðja, óháð því hvaðan þessar góðu hugmyndir koma. Því mæli ég eindregið með því að þingið afgreiði þetta frumvarp sem fyrst.