Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2022.

984. mál
[18:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Norrænt samstarf er okkur Íslendingum afskaplega mikilvægt og auðvitað erum við fullgildir meðlimir. Við leggjum inn í samstarfið og leggjum okkar af mörkum, en það verður samt ekki fram hjá því horft að við erum minnst þessara fimm ríkja og skjólið sem við getum fengið í gegnum samstarfið á svo marga vegu við þessar nágrannaþjóðir okkar er okkur mjög mikilvægt. Þannig að við ættum, og ég er alveg viss um að hæstv. ráðherra er sammála mér um það, að gera allt sem við getum til að efla þetta samstarf á svo marga vegu.

Í skýrslunni er stiklað á stóru yfir stofnanirnar og helstu verkefnin. Þau eru mörg hver mjög áhugaverð. Ég og hæstv. ráðherra höfum oft rætt um fjármálin en ég ætla að sleppa því að spyrja hann út í þau núna. Talað er um norrænt samstarf varðandi lyfjamál í þessari skýrslu en það er ekki talað um samstarf um sameiginlegt útboð. Ég hef áhyggjur af því hvernig við stöndum, Íslendingar, í þessum efnum vegna þess að við erum með 3.000 skráð vörunúmer á lyfjum hér á landi á meðan Noregur og Svíþjóð eru með 14.000. Við erum svo lítill markaður að hættan er sú að við séum bara með ódýr og gömul lyf en ef við værum í nánari samstarfi gætum við fengið nýju lyfin ódýrari gegnum útboðssamstarf við norrænu ríkin. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort slíkt samstarf hafi ekkert komið til tals í norrænu ráðherranefndinni.