Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2022.

984. mál
[18:09]
Horfa

ráðherra norrænna samstarfsmála (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég ætla að byrja á því að taka undir orð hv. þingmanns um hversu mikilvægt norrænt samstarf er okkur Íslendingum og kannski ekki síst vegna þess að við erum minnsta landið í hópi þeirra fimm sem eru sjálfstæð ríki. Ég tel að við fáum mjög mikið út úr samstarfinu. Ef við horfum bara á fjármagnið sem fer til þess frá okkur þá erum við að fá það margfalt til baka en við erum á flestum sviðum, ef ekki öllum, mjög virkir þátttakendur, sem skiptir miklu máli.

Hv. þingmaður spyr hér út í sameiginlegt útboð lyfja á Norðurlöndunum. Ég veit að þetta hefur verið til umræðu á meðal heilbrigðisráðherra landanna. Nákvæmlega hver staðan er á þessu núna þekki ég því miður ekki og líkt og hv. þingmaður nefndi er ekki farið í það í skýrslunni. En það væri áhugavert að fá upplýsingar um þetta og ég skal svo sannarlega óska eftir þeim hjá nefndinni og/eða hjá skrifstofunni í Kaupmannahöfn og koma þeim upplýsingum til hv. þingmanns.