Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2022.

984. mál
[18:11]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta. Í skýrslunni er líka talað um umhverfis- og loftslagsmál, þetta stærsta sameiginlega verkefni mannkyns. Það er ekki skrýtið að ráðherranefndin og Norðurlandaráð vilji verja bæði fjármunum og tíma í þetta mikilvæga verkefni vegna þess að á norðurslóðum er hlýnunin margfalt hraðari en á öðrum stöðum á jörðinni og það hefur mikil áhrif bara á örfáum árum, bæði á lifnaðarhætti dýra og manna. Stundum virðist það gleymast í allri þessari umræðu um samninga og sáttmála í loftslagsmálum þegar ríki heims koma saman, að á norðurslóðum býr fólk sem er að glíma við þessar hröðu og alvarlegu breytingar og það eru fáir, held ég, sem velkjast í vafa um að þetta er allt saman af mannavöldum. Þannig að þó að ég vilji ekki að minni peningur fari í menningar- og menntamál af þeim krónum sem við setjum í sameiginleg verkefni fyrir norrænu ríkin þá eru verkefni sem snúa að loftslagsmálum afskaplega mikilvæg. En þau eru samt svolítið óljós, kannski af því að þetta er nýbyrjað. En það er verkefni sem nefnt er í skýrslunni sem heitir Sjálfbær lífsstíll á Norðurlöndum og það má vera að ég hafi ekki orðið vör við kynningu á því verkefni vegna þess að það á að beina því sérstaklega að ungu fólki. En ég held að slíkt verkefni skipti mjög miklu máli af því að það eru ekki bara vísindamenn og rannsóknaraðilar sem þurfa að koma að loftslagsmálunum heldur þurfum við, íbúarnir í norrænu ríkjunum, að gera okkar og þá þurfum við að breyta um lífsstíl. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í þetta verkefni.