Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2022.

984. mál
[18:13]
Horfa

ráðherra norrænna samstarfsmála (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að hafa áherslu á loftslagsmál og auðvitað eru þau mjög fyrirferðarmikil í þeirri framkvæmdaáætlun sem unnið er eftir núna á árunum 2021–2024. Meiningin er auðvitað sú að þau fléttist inn í sem flesta starfsemi og helst alla starfsemi mismunandi sviða. Þannig að í öllum þeim áætlunum sem mismunandi ráðherranefndir hafa verið að setja núna fyrir 2021–2024 þá hafa þessi grænu Norðurlönd, sú áhersla, verið gegnumgangandi hvað það varðar og þá með sérstakri áherslu á loftslagsmálin. Mér finnst mjög spennandi að umhverfis- og loftslagsráðherrarnir skuli hafa ákveðið að taka sjálfbæra neyslu sérstaklega fyrir, mér finnst stundum eins og við forðumst svolítið að ræða akkúrat það mál af því að ég held að það komi svolítið við kaunin á okkur. Ég held að það komi svolítið við okkur hvert og eitt. Hvernig getum við stuðlað meira að sjálfbærri neyslu og hvað er sjálfbær neysla? Má ég þá ekki lengur fljúga til útlanda í frí? Má ég þá ekki lengur kaupa mér öll þau föt sem ég vil o.s.frv.? Þetta finnst okkur einfaldlega óþægilegt að tala um þannig að þessu verkefni er ætlað að reyna að ná betur utan um umræðuna og það hvernig við nálgumst þetta mikilvæga viðfangsefni. Ég bind þess vegna vonir við það að við fáum eitthvað út úr þessu verkefni sem við getum síðan unnið áfram með.