Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2022.

984. mál
[18:18]
Horfa

ráðherra norrænna samstarfsmála (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mig langar að byrja á því að nefna að Helsingfors-sáttmálinn veitir norrænu ríkjunum talsvert svigrúm til víðtæks samstarfs. Ég vil í fyrsta lagi taka það fram. Hver er sýn ráðherrans á framtíð norræns samstarfs? Það er kannski erfitt að fara yfir það á einni til tveimur mínútum. Mig langar þó að nefna að ég held að á sama tíma og við viljum standa vörð um þessar grunnstoðir, sem eru menningarlegi þátturinn og menntastoðin, þá þurfum við að hafa nægjanlegan sveigjanleika til að geta brugðist við áherslum sem koma upp á hverjum tíma, um leið og við stöndum vörð um það sem norrænt samstarf byggir á. Þess vegna held ég að framtíðarsýnin til 2030 sé mjög mikilvæg til þess að varða veginn, sem og framkvæmdaáætlanirnar, sú sem á að enda 2023 og sú sem nú er unnið að fyrir 2025–2030, til að setja kúrsinn. Ég held að eitt af því sem norræna ráðherranefndin þyrfti að gera meira af er að samhæfa betur samstarf Norðurlandanna í margvíslegum alþjóðamálum, m.a. hvernig norrænu ríkin geta komið saman á alþjóðavettvangi, segjum t.d. í samningaviðræðum um loftslagsmál eða líffræðilega fjölbreytni eða hvað annað það er, sem ein rödd og á fókuseraðri hátt en þau gera í dag, vegna þess að saman erum við talsvert mörg og erum sterk og við höfum þessi sömu gildi lýðræðis, mannréttinda og umhverfisverndar. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt sem hluti af sýn okkar á norrænt samstarf. Ég skal reyna að koma meira inn á öryggis- og varnarmál á eftir.