Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2022.

984. mál
[18:21]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svarið og get verið sammála honum um það að ég held að það sé ofboðslega mikill akkur í því og mikilvægt fyrir Ísland og í rauninni öll Norðurlöndin að við nýtum krafta okkar á alþjóðavettvangi. Ég hef tekið í þessu samhengi oft sem dæmi norðurslóðamál. Nú eru Norðurlöndin öll norðurslóðaríki, hin norðurslóðaríkin eru Rússland og svo Bandaríkin og Kanada. Við erum sem sagt svolítið á milli stórvelda og önnur stórveldi eins og Kína hafa blandað sér svolítið í umræðuna um norðurslóðir. Þess vegna held ég að sé mjög mikilvægt að Norðurlöndin séu svolítið sameinuð og sameini krafta sína í að vera það svæði sem talar fyrir friði, talar fyrir lágspennu á norðurslóðum, tryggi þá náttúru sem þar er og huga að vörnum, og þá er ég bæði að tala um samfélagsvarnir og varnir fyrir náttúru.

Ég veit að það er erfitt að fara yfir svona stór mál á svona stuttum tíma, ég mun kannski gera það í ræðu á eftir, en það ein önnur spurning sem mig langar að bæta við. Það kemur hérna fram að Færeyingar hafi tekið sæti í stjórn Nordforsk, ég hjó eftir því. Eins og ég nefndi þá tala ég fyrir því að Helsingfors-sáttmálinn verði tekinn upp og inn í hann bætist einhver kafli um öryggis- og varnarmál. Það er ljóst að í slíkri umræðu munu sjálfstjórnarsvæðin koma mikið til tals og þó að þau eigi sæti í Norðurlandaráði þá eru þau ekki með atkvæðisrétt. Ég fagna því að sjá hér að Færeyingar hafi tekið þarna sæti og spyr ráðherrann hvort hann þekki til þess að það sé víðar svoleiðis. Hver er hans sýn á það að við förum að taka upp samninginn? Hvar stöndum við Íslendingar varðandi sjálfstjórnarsvæðin þegar þau óska eftir meiri og sterkari aðkomu að norrænu samstarfi?