131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Athugasemd.

[10:41]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Íslendingar spyrja sig í dag hvers þeir eigi að gjalda. Hvers á íslenska þjóðin að gjalda að hafa kallað yfir sig ákvarðanir og valdbeitingu með þeim hætti sem nú hefur verið gert? Hvers á fólk að gjalda? Hvernig stendur á því að við stöndum hér í dag og spyrjum okkur: Í hvaða kompaní erum við eiginlega komin? Menn reyna að finna samlíkingar og finna þær helst hjá spilltustu stjórnkerfum heims hvort sem þau eru austan eða vestan hafs eða sunnan miðbaugs. Allt ber þetta að sama brunni.

Búið er að varpa fagmennskunni fyrir róða, búið er að varpa virðingunni fyrir starfsreynslu fólks fyrir róða og búið er að varpa fyrir róða þeim aðferðum og þeirri hefð sem byggð hefur verið upp á 70 árum á Ríkisútvarpinu, bestu fréttastofu landsins. Allt þetta skiptir það fólk sem stóð að ráðningu nýs fréttastjóra engu máli, vegna þess að það eina sem skiptir það máli er að hafa pólitíska stjórn á fréttastofu Ríkisútvarpsins, að hafa sína menn góða og sjá til þess að hægt sé að hafa tangarhald á Ríkisútvarpinu þannig að það sé ekki lengur frjálst almannaútvarp heldur eins og hver önnur upplýsingaveita þeirra sem völdin hafa í landinu.