131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[14:46]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég fagna sömuleiðis framkomu þessarar þingsályktunartillögu um ferðamál. Ég er í öllum aðalatriðum ákaflega sáttur við þær áherslur sem hér eru lagðar í þeim meginmarkmiðum sem ferðamálin eiga að þróast eftir eða stefna beri að á umræddu tímabili, 2006–2015. Vandinn er ekki sá að þar séu menn ekki í sjálfu sér að beina sjónum að réttum hlutum heldur miklu fremur hitt hvernig menn nái þeim markmiðum fram. Hvar er afl þeirra hluta sem gera skal í formi fjárveitinga eða beinna aðgerða?

Ferðaþjónustan er gríðarlega mikilvæg atvinnugrein. Hún er um þessar mundir og hefur verið nokkur undanfarin ár næstöflugasti gjaldeyrisaflandi þjóðarinnar á eftir sjávarútveginum. Ferðaþjónustan náði þessum sess fyrir nokkrum árum og hefur haldið honum, er ýmist í öðru sæti eða við hliðina á stóriðjunni þrátt fyrir þann vöxt sem þar hefur verið. Og þó svo að stóriðja eða álframleiðsla fyrst og fremst kunni tímabundið að fara fram úr ferðaþjónustunni sem brúttó gjaldeyrisaflandi inn í þjóðarbúið óttast ég ekki uppgjörið þegar kemur að nettóskilunum og ekki síst því hvernig afraksturinn í þessum tveimur greinum dreifist með mismunandi hætti um þjóðarlíkamann. Ferðaþjónustan er satt best að segja ákaflega góð atvinnugrein hvað það varðar að hún nýtir innviði samfélagsins, hún styrkir ýmsa aðra starfsemi og bætir rekstur í samgöngukerfinu og þjónustu sem kemur landsmönnum sjálfum víða til góða, og virðisaukinn verður að langmestu leyti eftir hér innan lands.

Hún er atvinnuskapandi og það er rangt sem oft er haldið fram að í ferðaþjónustu séu eingöngu láglaunastörf og í ferðaþjónustunni sé allt gert upp með bullandi tapi. Hvort tveggja eru að vísu lífseigar goðsagnir en það eru goðsagnir. Það er líka mikið um ágætlega launuð störf og hálaunastörf í ferðaþjónustu. Ekki þykir dónalegt að vera flugstjóri á millilandaþotu eða rekstrarstjóri í stórri einingu í ferðaþjónustunni þó að vissulega séu líka störf í lægri launaendanum.

Ég er mjög ánægður með þá áherslu sem hér er víða lögð í meginmarkmiðum og víðar í tillögunni á náttúru Íslands, á umhverfisvæna ferðaþjónustu og á að varðveita ímynd landsins. En spurningin er þá aftur um það: Eru innstæður fyrir þessu og hvað erum við að gera þessi árin til að undirbyggja og standa við þessi fyrirheit? Auðvitað þýðir ekki annað en horfast í augu við stóriðjustefnuna og þær mótsagnir sem fólgnar eru í því annars vegar að vera að reyna að hlúa að þessari mikilvægu vaxtargrein og hins vegar því að skemma fyrir, eyðileggja svæði á landinu sem hafa mikið aðdráttarafl og alveg sérstaklega að skaða ímynd landsins.

Það þýðir ekkert annað en orða það eins og það er, að það er auðvitað staðreynd að Kárahnjúkavirkjun með þeirri gríðarlegu neikvæðu athygli sem hún hefur vakið á alþjóðavettvangi er mjög slæmt innlegg í annars að mestu leyti jákvæða landkynningu Íslands í heiminum undanfarin ár. Það get ég sjálfur mjög vel borið um. Þau skipta tugum viðtölin sem ég hef verið beðinn um á undanförnum mánuðum og missirum af erlendum fjölmiðlum um það mál. Af ýmsum ástæðum og skiljanlegum sjálfsagt, verandi formaður í umhverfisverndarflokki, hefur oft verið leitað til mín um að færa fram gagnstæð sjónarmið og andæfa stefnu stjórnvalda í þeim efnum. Þar hafa mörg af helstu stórblöðum heimsins og tímaritum verið með ítarlega umfjöllun sem hefur svo sannarlega ekki verið góð landkynning, ekki góð auglýsing nema síður sé. Þetta verða menn að horfast í augu við.

Varðandi rekstrarafkomu ferðaþjónustunnar var réttilega bent á það af hv. þm. Jóni Bjarnasyni að gengisþróunin um þessar mundir er ákaflega erfið ferðaþjónustunni sem og öðrum útflutnings- og samkeppnisgreinum. Iðnrekendur sem selja framleiðslu sína inn í ferðaþjónustuna fóru að taka eftir því strax á síðasta sumri að ört hækkandi raungengi krónunnar fór að draga úr viðskiptum. Þetta hafa fleiri en einn og fleiri en tveir staðfest í mín eyru sem eru að framleiða minjagripi eða prjónavörur eða annað slíkt til sölu í ferðaþjónustunni.

Hitt er annað mál að staða Íslands er svo sterk vegna þess sem við höfum upp á að bjóða, vegna landsins sjálfs, sem er auðvitað meginaðdráttaraflið að það vegur upp þessa þætti og gerir gott betur. Þegar menn hafa áhyggjur af háu verði á brennivíni eða á bjór og léttvíni deili ég þeim áhyggjum ekki. Ég vísa þar einfaldlega til hins mikla vaxtar í ferðaþjónustunni. Hún er að vaxa meira en nokkur önnur atvinnugrein og miklu meira en ferðaþjónustan á heimsvísu þrátt fyrir hið háa bjórverð og léttvínsverð.

Eigum við þá að álykta sem svo að ef við lækkum bjórinn og brennivínið vaxi hún enn þá meira? Munu ferðamenn þá fara að streyma til Íslands í enn auknum mæli bara til þess að drekka hér ódýran bjór? Ég held ekki. Ég held að það sé mikill misskilningur og við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af því.

Auk þess er það ekki þannig að áfengisstefna þjóðarinnar eigi að ráðast af því hvað gæti dregið að landinu fleiri ferðamenn. Þeir eru satt best að segja að hellast yfir okkur í það miklu magni að það er frekar áhyggjuefnið hvernig við ætlum að takast á við það á komandi árum að taka á móti öllum þeim mikla fjölda sem hingað streymir. Þar kemur t.d. að því, að ég tel, að bæta þurfi við þriðju áætluninni sem er sérstök áætlun, framkvæmdaáætlun um aðgerðir á sviði umhverfismála sem miðar við að Ísland ráði við ferðamannafjöldann árið 2008, 2010, 2012 og 2015. Hvenær sem þeir nú verða 500 þúsund, 800 þúsund eða 1 milljón er algjörlega augljóst mál að nú þarf, og það er brýnt, að ráðast í viðamiklar aðgerðir til að dreifa álaginu, til að betur sé hægt að taka á móti ferðamönnunum á vinsælustu stöðunum. Þetta kostar fjármuni í göngustígagerð og öðrum slíkum hlutum, annars er illa að fara. Ég kem nokkuð reglulega á hverju ári á marga helstu ferðamannastaði sumarsins, Landmannalaugar, Herðubreiðarlindir, Dimmuborgir o.s.frv. og fylgist með því hvernig ástandið er að versna vegna þess að ekki er nógur viðbúnaður til að mæta álaginu.

Ég vil segja um megináherslur í kynningarmálum að ég hef efasemdir um þá miklu áherslu sem þar er lögð bara á okkar heimshluta, þ.e. Norður-Ameríku, Bretland, norræn lönd og meginlönd Evrópu. Að sjálfsögðu eigum við að leggja þar mikla áherslu en ég held að framtíðin liggi líka í Japan, Indlandi, Ástralíu og Nýja-Sjálandi og fleiri löndum sem við erum núna að tengjast betur með beinum samgöngum og langdrægari og hraðfleygari flugvélum. Beint flug Flugleiða til San Francisco opnar möguleika á flugi til Ástralíu og Nýja-Sjálands með einni millilendingu og það gæti þjónað báðum löndum vel að efla markaðsstarf til dæmis þar.

Ég fagna áherslu á samstarf við Vestnorræna svæðið en spyr þar aftur: Hvað ætla menn þá að gera? Eru menn t.d. tilbúnir því að gera samstarfssamning við Grænland um að Ísland leggi af mörkum fjármuni til uppbyggingar í grænlenskum samgöngum þannig að tengslin milli Íslands og Grænlands geti orðið greiðari, að Keflavík geti orðið tengipunktur fyrir millilandaflug Grænlendinga þannig að ekki bara ferðaþjónustan á austurströndinni og Suður-Grænlandi tengist um Ísland heldur líka allt millilandaflug þeirra? Það mundi þjóna báðum löndunum mjög vel, það er ég sannfærður um, og þröskuldarnir þar eru fyrst og fremst tilteknar dýrar (Forseti hringir.) framkvæmdir í samgöngumálum sem Grænlendingar ráða illa við einir og óstuddir (Forseti hringir.) og ég teldi alveg sjálfsagt mál að við Íslendingar (Forseti hringir.) stæðum betur við bakið á þeim.