131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

677. mál
[16:15]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um uppboðsmarkaði sjávarafla.

Frá því að núgildandi lög sem sett voru 1989 tóku gildi hefur fiskmörkuðum vaxið nokkuð fiskur um hrygg. Jafnframt hefur starfsemin breyst töluvert síðan þá og hefur verið bent á það að þörf væri á endurskoðun laganna, bæði af hálfu forsvarsmanna markaðanna og eins hér á hinu háa Alþingi. Helstu atriði sem þörf hefur verið talin á að breyta eru gildistími rekstrarleyfa sem nú eru aðeins til eins árs og jafnframt hafa komið fram sjónarmið um að samræma þurfi starfsreglur markaða í því skyni að viðskiptaumhverfi verði skýrara fyrir kaupendur og seljendur. Af þeim sökum er hér lagt til að ráðherra setji í reglugerð nánari skilyrði um starfsemi markaða í stað þess að staðfesta starfsreglur hvers markaðar fyrir sig eins og nú er.

Loks er lagt til að sett verði viðurlagaákvæði í lögin en ekkert slíkt ákvæði er í núgildandi lögum. Sú tillaga sem hér er er viðurlagaákvæði án lágmarksrefsingar.

Einnig er rétt að geta þess að í þessum lögum er tilvísun til laga nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, en þar er m.a. kveðið á um skyldur sem hvíla á fiskmörkuðum varðandi meðferð og vinnslu sjávarafurða.

Að lokinni 1. umr., hæstv. forseti, legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. sjávarútvegsnefndar.