132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:01]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það verður að segjast eins og er að ég beið með nokkurri eftirvæntingu eftir ræðu hv. formanns Samfylkingarinnar um þessi efni. Ég vænti þess að í henni mætti hugsanlega greina hvert væri innlegg Samfylkingarinnar til þeirra umræðna sem nú eiga sér stað um öryggis- og varnarmál í landinu. Þegar upp er staðið verður að segjast eins og er að í þessari ræðu kom ekkert nýtt fram, innlegg Samfylkingarinnar til þessara mála er það eitt að það eigi að endurskilgreina, hugsa upp á nýtt, leita tillagna og eitthvað þess háttar. Það má segja að það sé frekar rýrt innlegg þegar við veltum fyrir okkur framtíðinni í þessum efnum. Þegar við tökumst á við þau verkefni sem felast í þeirri stefnumótun sem óhjákvæmileg er í ljósi yfirlýsingar Bandaríkjamanna er nú betra að flokkarnir hafi eitthvað fram að færa í því, einhverja sýn, einhverja stefnumótun, einhverja stefnu aðra en bara þá að setjast niður og móta stefnu. Það er hins vegar innlegg Samfylkingarinnar í umræðuna. Það er ekki ljóst af ræðu hv. formanns Samfylkingarinnar hvert hún vill stefna, bara það að setjast niður og velta hlutunum fyrir sér.

Nú má segja að í ræðu hæstv. utanríkisráðherra hafi það viðhorf komið fram að við hljótum við aðstæður eins og þær eru nú að leita eftir því að tryggja varnir Íslands innan ramma varnarsamningsins ef það er unnt. Það er sú stefna sem ríkisstjórnin fylgir í þessu máli. Mér fyndist forvitnilegt að vita hvort það er afstaða Samfylkingarinnar líka eða hvort hún hefur einhverja aðra áherslu í þeim efnum eða hvort þetta er bara allt opið.