132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:30]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég fjallaði í fyrri ræðu minni um skýrslu hæstv. utanríkisráðherra vítt og breitt, vakti athygli á þeim mikla samhljóm sem er í málflutningi hæstv. ráðherra við öfgafulla stefnu Bandaríkjastjórnar, núverandi stjórnar Georges Bush og tók nokkur dæmi þar að lútandi, afstöðuna til mannréttindabrota, afstöðuna til Miðausturlanda, Palestínu, Írans, Íraks og áfram mætti telja. Ég sýndi fram á hve vafasamt það væri að binda sig við fortíðina. Ég get í sjálfu sér tekið undir með hæstv. utanríkisráðherra í því efni því að hann veltir því fyrir sér í upphafi máls síns hvort ef til vill sé kominn tími til að hætta sífelldum tilvísunum í fyrri tíma en hann gerir það engu að síður sjálfur þegar hann fer að velta vöngum yfir framtíðaráformum. Sannast sagna hefur mér þótt menn ganga nokkuð langt í þeim efnum og fulltrúar annarra flokka en Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa fyrst og fremst litið til NATO um varnir Íslands. Menn hafa deilt um til hvaða NATO-ríkis eigi að horfa, hvort eigi að fara línuleið hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar, a.m.k. utanríkisráðherra. Hæstv. forsætisráðherra hefur haft aðrar áherslur, en utanríkisráðherra hefur viljað horfa til tvíhliða samnings við Bandaríkin en aðrir hafa horft til NATO-ríkjanna. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum hins vegar hvatt til þess að málin verði skoðuð á alveg nýjum forsendum og hvort heppilegra gæti verið að tryggja öryggishagsmuni Íslands utan hernaðarbandalaga. Við erum reyndar eindregið á þeirri skoðun og teljum að á þessum tímamótum eigi menn að opna hugann og hyggja að því hvort þetta gæti verið ráðlegur kostur.

Hluti af hinu liðna er náttúrlega tal um fyrirhyggju eða fyrirhyggjuleysi. Ég ætla ekki að fara að velta mér upp úr því þótt ríkisstjórnin hafi óumdeilanlega sýnt mikið fyrirhyggjuleysi. Hún hefur ekki svarað kalli okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem aftur og ítrekað höfum flutt þingmál á Alþingi þar sem við höfum hvatt til þess að við værum undirbúin nákvæmlega undir það sem nú er að gerast og var fyrirsjáanlegt allar götur frá því í byrjun 10. áratugarins en þá lauk hinu kalda stríði. Við höfum sýnt fram á það í þingmálum okkar hvernig þróunin hefur verið. Stöðugt hefur verið dregið úr viðbúnaði Bandaríkjamanna á Miðnesheiði og fólki fækkað. Ég ætla ekki að gera þetta í sjálfu sér að umræðuefni nú en minna á áhersluþætti sem við höfum vakið máls á. Þeir lúta að fólkinu, þeir lúta að landinu, þeir lúta að verkefnum sem þarf að sinna og ég ætla að víkja örlítið að þeim þáttum.

Varðandi fólkið er að sjálfsögðu mikilvægast að sjá til þess að aðstæður skapist fyrir blómlegt atvinnulíf á Suðurnesjum. Reyndar er það svo að þrátt fyrir mikla fækkun hjá Bandaríkjaher á undanförnum árum sem hefur verið umtalsverð — íslenskir starfsmenn voru í byrjun tíunda áratugarins yfir 1000, voru í ársbyrjun 2005 komnir niður í 674 — hefur það ekki leitt til atvinnuleysis. Í greinargerð með þingmáli okkar segir, með leyfi forseta:

„Þannig nam fækkunin á tímabilinu 30. apríl 2003 til 31. desember 2004 a.m.k. 535 störfum. Í því sambandi er afar eftirtektarvert að þessa sér ekki eins stórlega stað og ætla mætti í atvinnuleysistölum á Suðurnesjum án þess að lítið sé gert úr þeim vanda sem þetta hefur skapað, sérstaklega fyrir viðkomandi einstaklinga og fjölskyldur.“

Að sjálfsögðu er það fyrst og fremst í tengslum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hún og þjónustustarfsemi sem henni tengist hefur verið að blása út þar sem fólk hefur fengið atvinnu og er það vel.

Annað sem snýr að starfsmönnum eru starfslokin hjá Bandaríkjaher. Tryggja þarf að haldið sé utan um hagsmuni starfsmanna og einkum þeirra sem ekki fá störf. Þar þarf að ganga fram með kröfur um biðlaun, að starfsmönnum verði greitt fé sem þeir nýti til að laga sig að nýjum aðstæðum. Þetta er áhersluatriði sem við höfum viljað brýna fyrir stjórnvöldum.

Síðan er það landið. Mikla mengun er að finna á þessu svæði og hvarvetna þar sem Bandaríkjamenn hafa verið með herstöðvar hér á landi. Hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, einkum hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, ítrekað vakið máls á þessu og m.a. flutt tillögur til þingsályktunar. Sú síðasta er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta fara fram rannsókn á umhverfisáhrifum af völdum erlendrar hersetu og hernaðarumsvifa á Íslandi og hættum sem eru núverandi hernaðarumsvifum samfara. Einnig verði gerð úttekt á lagalegum álitaefnum þessu tengdum.

Rannsókn beinist sérstaklega að eftirfarandi þáttum:

1. grunnvatnsmengun,

2. jarðvegsmengun,

3. frágangi spilliefna og sorphauga,

4. umhverfishættu sem stafar af núverandi hernaðarumsvifum,

5. réttarfarslegum hliðum málsins varðandi skaðabótaskyldu erlendra og/eða íslenskra stjórnvalda gagnvart landeigendum í þeim tilfellum sem mengun hefur orðið og skyldu þeirra til að hreinsa menguð svæði.

Jafnframt verði reynt að áætla kostnað við hreinsun þeirra svæða sem mengast hafa.“

Þetta er úr þingsályktunartillögu sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flutti á 130. löggjafarþingi.

Dæmin hræða bæði hvað varðar jarðvegs- og grunnvatnsmengunina og einnig varðandi réttarfarslegu hliðina. Það er atriði sem ástæða er til að skoða núna í ljósi þess sem fram undan er. Bændur fyrir austan í grennd við Heiðarfjall, þar sem Bandaríkjamenn ráku herstöð allar götur frá því á sjötta áratugnum þar til henni var lokað í byrjun þess áttunda, hafa árangurslaust reynt að leita réttar síns gagnvart Bandaríkjunum og Bandaríkjaher og ekki fengið nokkra einustu aðstoð frá íslenskum stjórnvöldum. Meðal annars hefur verið leitað til dómstóla í því efni og í báðum tilvikum sem leitað var til dómstólanna var málunum vísað frá, bæði 1997 og 2001, en Hæstiréttur vísaði málinu frá dómi vegna þess að íslenskir dómstólar hefðu ekki lögsögu í málinu. Hér vísa ég í ræðu þáverandi utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni á sínum tíma. Þarna er talað um réttarfarslegar flækjur og á þeirri forsendu hafi málinu verið vísað frá. Þetta er atriði sem íslensk stjórnvöld þurfa núna að fara rækilega í saumana á í aðdraganda þess að samið verður við Bandaríkjamenn um brottför hersins. Þetta sýnir náttúrlega þá fyrirhyggju sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sýndi og þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur jafnan sýnt í þessu máli. Við höfum viljað undirbúa það sem í vændum var og vera reiðubúin til að takast á við þau verkefni sem núna blasa við. Þetta er annar þátturinn. Fyrsti laut að fólkinu, þessi laut að landinu, en síðan eru það verkefnin.

Við þurfum að takast á við mörg verkefni á komandi árum, sitthvað sem lýtur að öryggi þjóðarinnar, björgunarstarfi og öðru slíku sem bandaríski herinn hefur sinnt að hluta til. Þetta eru atriði sem við þurfum að sjálfsögðu að hyggja að og þá hvernig við eflum starfsemi sem þessu tengjast. Ég vil vísa í því sambandi í nýja samþykkt Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna en þeir héldu 11. þing sitt ekki alls fyrir löngu en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Til að geta brugðist við þeim hættum sem steðjað geta að samfélagi okkar er algjörlega nauðsynlegt að hafa stór, öflug og vel þjálfuð slökkvilið, (björgunarlið) sérstaklega í ljósi breytinga á vörnum landsins. Kjölfestan í bráðaþjónustu við samfélagið er í slökkviliðunum. Það er því nauðsynlegra nú, við breyttar aðstæður í varnarmálum þjóðarinnar, en nokkru sinni áður að efla og stækka slökkviliðin hér á suðvesturhorninu.“

Þetta segir í ályktun 11. þings Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna en það var haldið fyrir fáeinum dögum.

Mér finnst sérstök ástæða til að vekja athygli á þessu nú í tengslum við þá yfirlýsingu hæstv. utanríkisráðherra að hann eigi sér þá draumsýn að Keflavíkurflugvöllur verði einkavæddur. Ég hefði haldið að menn stefndu í gagnstæða átt hvað þetta varðar og tækju öll þau frumvörp og allar þær hugmyndir sem snúa að því að einkavæða og markaðsvæða grundvallaröryggisþjónustu í landinu, hvort sem það er landhelgisgæsla, það hafa verið áform um að einkavæða hana eða hlutafélagavæða. Það hefur verið talað um — nú er dottið úr huga mér hvaða önnur áform voru uppi. Það var Landhelgisgæslan og það er núna Keflavíkurflugvöllur og ef ég hef það rétt eftir mun hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, hafa viðrað þá hugmynd í ræðu í Reykjanesbæ nýlega að hann sæi þann möguleika fyrir sér að slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli yrði hugsanlega rekið eða sæi það fyrir sér sem hluta af Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. Sem sagt, menn eru á þeim buxum að taka þessa grundvallaröryggisþjónustu og setja hana út á markað. Þetta finnst mér alveg fráleitt og sýna alveg fádæma fyrirhyggjuleysi.

Það er ýmislegt annað náttúrlega sem lýtur að þessum skiptum. Hverjir eru eignaraðilar að flugvellinum og mannvirkjum á Keflavíkurflugvelli? Þarna er margt mjög óljóst. Sumt er í eigu Bandaríkjanna, annað í eigu Atlantshafsbandalagsins, NATO, og síðan er annað og væntanlega landið í eigu Íslendinga, en hverra? Hvað á ríkið? Hvað eiga sveitarfélög? Hvað heyrir til einstaklinga hugsanlega? Allt eru þetta þættir sem þarf að kortleggja. Við lögðum til að í stað þess að vísa öllum þessum þáttum til utanríkismálanefndar á óljósan hátt eins og gert hefur verið, verði skipuð þverpólitísk nefnd til að fara yfir þessa praktísku þætti málsins sem lúta að viðskilnaði hersins vegna mannahaldsins, vegna landsins, mengunar og annars slíks, vegna eignarhalds á landinu og vegna ýmissa verkefna sem óhjákvæmilega færast yfir á íslenskar hendur. Um þetta fluttum við þingmál og eigum enn eftir að fá því svarað hvers vegna ríkisstjórnin bregst ekki jákvætt við þeim tillögum okkar um þverpólitískt samstarf að þessum málum.