135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

frumvarp um sjúkratryggingar, Lýðheilsustöð.

[10:41]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Vegna síðustu orða hæstv. ráðherra þá fannst mér hann í raun vera að segja að sá starfsmaður sem þarna hefur gegnt forustuhlutverki verði ráðinn aftur. Þá veltir maður því fyrir sér: Hvers vegna á þá að auglýsa starfið? (Gripið fram í: Á ekki að auglýsa störf?) Það er ekki nauðsynlegt að auglýsa störf. (Gripið fram í: Nú, ...)

Í sambandi við þessi faglegu vinnubrögð og orð hæstv. ráðherra um frumvarpið þá var ég ekki að fjalla um efni þess, ég hef ekki komið fram með neina afstöðu til málsins efnislega. Ég var hins vegar að gagnrýna þessi vinnubrögð miðað við þau fögru orð sem hæstv. ráðherra lét falla um það hve hann væri áhugasamur um gott samstarf við alla aðila um heilbrigðismál. Þau vinnubrögð að henda þessu frumvarpi inn núna á síðustu dögum þingsins eru ekki boðleg. Þess vegna vonast ég til þess að hann staðfesti það síðar í ræðu sinni að hann muni ekki leggja áherslu á að þetta mál fari í gegn á þessu vori.