136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[12:01]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég dreg ekki í efa góðan vilja hæstv. ráðherra til að koma á jöfnuði á milli landsmanna í þessum efnum. Afstaða mín er alveg skýr, ég tel að orkan sé sameign þjóðarinnar og hún eigi að vera á hliðstæðu verði um allt land óháð búsetu. Þetta er hluti af grunnþjónustu fyrir atvinnulíf og byggð í landinu og á að líta svo á hana. Þær hækkanir sem verða núna koma harðast niður á þeim svæðum sem við vildum að þær kæmu kannski síst niður á. Ég hefði viljað sjá beinar jöfnunaraðgerðir þar sem landsmenn allir öxluðu ábyrgð á þessum hækkunum og að við skoðuðum líka hvernig við mættum færa þessar orkuveitur aftur til skynsamlegra horfs og hætta þeirri ímyndun að hægt sé að reka hér samkeppni í raforku.

Það var minnst á nýjar hitaveitur og styrkingu annarra. Það hefur verið á borðinu að leggja hitaveitu til Skagastrandar og ég veit að við afgreiðslu fjárlaga var gert ráð fyrir því að af hálfu ríkisins yrði lagt þar fram fjármagn og aðliggjandi sveitarfélög hafa sömuleiðis gert ráð fyrir því að hafa tilbúið fjármagn til að leggja hitaveitu frá Reykjum eða Blönduósi til Skagastrandar. Þá er það Rarik sem heyrir undir hæstv. ráðherra sem þarf að leggja fram þriðja hlutann. Þetta er gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir byggðirnar þarna út með og var á framkvæmdaáætlun að þetta gerðist á þessu ári. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort þetta standi og hvort hann vildi þá ekki beita áhrifum sínum til þess (Forseti hringir.) að við þetta verði staðið og hitaveitan lögð eins og ráðgert var í sumar.