136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[14:29]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hér hafa rætt þetta. En ég vil þó benda á að hækkunin er í heild sinni upp á 106,7 millj. kr. Það hafa auðvitað þegar verið veittar fjárveitingar upp á 89 millj. kr. sem ekki hafa verið nýttar til þessa málaflokks sem væntanlega munu koma til móts við þessar 106,7 millj. kr. Að vísu standa eftir 17 millj. kr. sem á eftir að greiða út. En ég vil minna á að þessar heimildir hafa verið veittar og ekki nýttar innan ráðuneytisins og því vonumst við til þess að útgjöldin minnki sem því nemur á næstu þremur árum.

Hins vegar er ljóst þegar lengra er horft, fram yfir næstu þrjú ár en fjölgun mánaðarlaunanna er varanleg, að það þarf að huga að því í komandi fjárlögum, eftir 2012 því þá verður þessi fjölgun orðin varanleg og þá þarf að gera ráð fyrir henni á fjárlögum.