140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að þeir eru til sem misskilja þær kosningar sem fram eiga að fara. Það er verið að leita eftir áliti þjóðarinnar á tilteknum spurningum þar á meðal tillögum stjórnlagaráðs.

Það er einn mjög stór galli við það hvernig þetta er sett fram. Gallinn er sá að kjósandi hefur einungis val um að samþykkja allt eða ekkert. Nú eru ákveðnar greinar í tillögum stjórnlagaráðs mjög til bóta og aðrar sem eru alls ekki í lagi að mínu viti. Ég hefði gjarnan viljað fá að velja þær greinar sem eru góðar og að það færi þá í gegnum einhvers konar vinnslu og menn gætu síað þetta út með einhverjum hætti. Hins vegar er einungis gert ráð fyrir að þjóðin geti sagt já við öllum tillögunum eða nei við þeim öllum, auk þess geta menn svo setið hjá við atkvæðagreiðsluna. Þetta er að mínu viti stór galli á þessari kosningu.

Varðandi jöfnun atkvæðaréttar þá ganga þær hugmyndir vitanlega út á það að færa þingmenn og færa völdin frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Það er einfaldlega þannig. Og nú eru uppi hugmyndir um að auka enn frekar á þau afgjöld sem landsbyggðin reiðir af hendi í formi hárra veiðigjalda, sem er landsbyggðarskattur. Það bætist þá við það að í dag verða tvær af hverjum þremur krónum sem landsbyggðin aflar eftir í Reykjavík og þar á að bætast við. Síðan tala menn um að jafna atkvæðavægið. Ég er ósammála því, við skulum bara hafa það á hreinu.